16. jún. 2016

Fuglalíf í friðlandi Vífilsstaðavatns

Flórgoðum hefur verið hjálpað eins og áður með hreiðurstæði við Vífilsstaðavatn. Flórgoðapar yfirtók annað hreiðurstæðið fljótlega, en hitt greinabúntið var yfirgefið eftir nokkra daga. Nú hefur goðapar gert sér náttúrulegt flothreiður og hafið álegu skammt frá norðurbakkanum og nálægt stóra greinabúntinu þar sem fyrsta parið er.
  • Séð yfir Garðabæ

Flórgoðum hefur verið hjálpað eins og áður með hreiðurstæði við Vífilsstaðavatn. Sett voru út tvö búnt úr birkigreinum þann 14. apríl út frá norður- og norðausturbakkanum. Flórgoðapar yfirtók annað hreiðurstæðið fljótlega, en hitt greinabúntið var yfirgefið eftir nokkra daga.

Einnig voru útbúin gervihreiðursræði eða flothreiður, sett út frá norðvesturbakka vatnsins. Þau hafa ekki verið tekin í notkun af flórgoðum, en vitað að þau hafa verið skoðuð af flórgoðum og krían sest á þau.
Nokkuð er af kríu, sem liggja á hér og þar á móablettum utan lúpínubreiðanna. Krían á svo eftir að nýta lúpínuna með því að geyma þar ófleygu unganna.

Nú hefur goðapar gert sér náttúrulegt flothreiður (sjá mynd af parinu við byggingu þess) og hafið álegu skammt frá norðurbakkanum og nálægt stóra greinabúntinu þar sem fyrsta parið er.
Þann 4. júní fóru fuglafræðingarnir Jóhann Óli Hilmarsson og Ólafur Einarsson í talningu á fuglum á Vífilsstaðavatni og tóku meðfylgjandi mynd af flórgoðapari í greinabúntinu. Á vatninu var hringandarsteggur með skúföndum, álftapar með fjóra unga og nýtt skeiðandarpar. Skúfendurnar voru 64 en bara 3 duggandarpör, þeim hefur fækkað mikið. Við talninguna sást einn stakur himbrimi á vatninu. 

Við eftirlit 14. júní sl. voru 5 flórgoðar á hreiðrum og par að auki að byggja hreiður. Á Urriðavatni voru tveir flórgoðar. Spennandi verður að fylgjast með hve mörgum ungum flórgoðunum tekst að koma á legg.

Ljósmyndir með frétt: Jóhann Ólafur Hilmarsson.

Sjá líka frétt frá 19. apríl sl.

Á mynd hér fyrir neðan: Flórgoðapar í útbúnu hreiðurstæði úr birkigreinum.

Flórgoðapar í útbúnu hreiðurstæði úr birkigreinum