17. des. 2008

Börn frá 15 mánaða á leikskóla

Öll börn sem náð höfðu 15 mánaða aldri fengu vist í leikskóla haustið 2007. Á skólaárinu 2007-2008 voru ellefu leikskólar starfandi í Garðabæ og leikskólabörn voru 608.
  • Séð yfir Garðabæ

Öll börn sem náð höfðu 15 mánaða aldri fengu vist í leikskóla haustið 2007. Á skólaárinu 2007-2008 voru ellefu leikskólar starfandi í Garðabæ og leikskólabörn voru 608. Þetta er meðal upplýsinga í ársskýrslu leikskóla Garðabæjar skólaárið 2007-2008 sem nú er aðgengileg á vefnum.

Þær breytingar urðu í leikskólamálum á skólaárinu að Montessori setrið hætti starfsemi í júlí 2008 og að leikskólakennarar sem starfa við leikskólann Kjarrið tóku við rekstri hans í ágúst 2008. 

51% barna var í leikskólum sem reknir eru af öðrum en Garðabæ og er það annað árið sem það á við um meira en helming leikskólabarna í Garðabæ.

Hlutfall fagfólks í leikskólum í Garðabæ var frá 38% til 75%. Ekki tókst að fullmanna alla leikskólana. 

Sem dæmi um þróunar og nýbreytnistarf á skólaárinu má nefna þróunarverkefni leikskólans Hæðarbóls "Nám – leikur - gleði" og verkefni Sunnuhvols um hreyfingu og næringu.

Níu dagforeldrar eru við störf í Garðabæ með 31 barn í dvöl hjá sér og starfa þeir samkvæmt þjónustusamningi við Garðabæ og foreldra. Greitt var alls með 52 börnum í vist hjá dagforeldrum.

Ársskýrslan er aðgengileg á vefnum á síðunni skólar/leikskólar