Fjölbreytt menningardagskrá næstu daga
Fjölbreytt menningardagskrá verður á boðstólum næstu daga í Garðabæ. Upplýsingar um menningarviðburði og aðra viðburði má finna í viðburðadagatalinu hér á vef Garðabæjar.
Hátíðardagskrá í tilefni af 50 ára vígsluafmæli Garðakirkju
Sunnudaginn 6. mars verður hátíðardagskrá í tilefni af 50 ára vígsluafmæli Garðakirkju. Dagskráin hefst að morgni til með æskulýðsguðsþjónustu í Vídalínskirkju kl. 11. Síðar um daginn eða kl. 14 verður hátíðarguðsþjónusta í Garðakirkju og að henni lokinni kl. 15 verða veitingar í boði Kvenfélags Garðabæjar í samkomuhúsinu á Garðaholti. Á Garðaholti hefst stutt málþing kl. 16 um skipulag Garðakirkjugarðs. Sjá einnig upplýsingar hér í viðburðadagatalinu.
Töfratónar í Vídalínskirkju
Yfirnáttúrulegar verur verða töfraðar fram með seiðandi tónum í safnaðarheimili Vídalínskirkju sunnudaginn 6. mars kl. 17. Systurnar Erla Björg og Rannveig Káradætur ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara flytja verk eftir Sigvalda Kaldalóns, Sigurð Þórðarsson, Jórunni Viðar, Clöru og Róbert Schumann, Grieg, Duparc, Menotti, Gounod og fleiri. Miðasala er við innganginn, sjá nánar hér.
Söngleikurinn SOUTH PARK í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ
Söngleikurinn SOUTH PARK var nýlega frumsýndur í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Það eru nemendur skólans í Leikfélaginu Verðandi sem setja upp söngleikinn og að þessu sinni var búin til leikgerð af hinni geysivinsælu teiknimynd South Park: bigger, longer and uncut eftir Trey Parker og Matt Stone. Verkið er meinbeitt háðsádeilda á útlendingahatur, málfrelsi, pólitíska rétthugsun o.fl. Aldurstakmark er 12 ára. Næsta sýning er á sunnudagskvöld en hér er hægt að sjá nánar um næstu sýningardaga og miðasölu.
Söguganga um Silfurtúnið
Þriðjudaginn 8. mars verður boðið upp á sögugöngu um Silfurtúnshverfið undir leiðsögn Baldurs Svavarssonar arkitekts. Gangan hefst kl. 17 og lagt verður af stað frá Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi. Boðið verður upp á kaffi á bókasafninu að lokinni göngu. Sögugangan er ein af mörgum sögu- og fræðslugöngum á árinu á vegum umhverfisnefndar, menningar- og safnanefndar og Bókasafns Garðabæjar í tilefni af 40 ára afmæli Garðabæjar. Sjá nánar hér.
Þríund á HönnunarMars í Hönnunarsafninu
ÞRÍUND - TRIAD er heiti sýningar sem opnar í Hönnunarsafni Íslands miðvikudaginn 9. mars kl. 17. Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður, Bjarni Viðar Sigurðsson keramiker og Aníta Hirlekar fatahönnuður hafa vakið verðskuldaða athygli á síðustu misserum fyrir verk sín. Í tilefni af HönnunarMars verður opnuð sýning á nýjum verkum þeirra og gefst því tækifæri til að sjá hönnuði úr ólíkum greinum teflt saman á spennandi hátt.
Góugleði Kvennakórs Garðabæjar
Góugleðin er sannkölluð menningardagskrá í tali og tónum sem verður haldin fimmtudagskvöldið 10. mars kl. 20 í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju. Á Góugleðinni stígur á stokk hópur listamanna og annarra þekktra bæjarbúa sem allir tengjast Garðabæ á einn eða annan hátt. Bæjarlistamaður Garðabæjar, Karólína Eiríksdóttir, tónskáld kynnir verk sín auk þess sem þrjú verka hennar verða flutt m.a. af Tinnu Þorsteinsdóttur, píanóleikara og Kvennakór Garðabæjar frumflytur verk Karólínu "Fuglatal brot úr yfirliti yfir fuglana á Íslandi" við texta Jónasar Hallgrímssonar. Kvennakór Garðabæjar og menningar- og safnanefnd Garðabæjar standa að Góugleðinni. Sjá nánar um dagskrá og miðasölu hér.