12. jan. 2016

Andrea Sif og Dagfinnur Ari eru íþróttamenn ársins 2015

Íþróttamenn Garðabæjar árið 2015 eru Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona úr Stjörnunni og Dagfinnur Ari Normann kraftlyftingamaður úr Stjörnunni. Lið ársins 2015 er meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum hjá Stjörnunni
  • Séð yfir Garðabæ

Íþróttamenn Garðabæjar árið 2015 eru Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona úr Stjörnunni og Dagfinnur Ari Normann kraftlyftingamaður úr Stjörnunni. Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 10. janúar sl. við hátíðlega athöfn í íþróttamiðstöðinni Ásgarði. Lið ársins 2015 er meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum hjá Stjörnunni.

Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, bauð gesti velkomna og stýrði dagskránni. Boðið var upp á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Garðabæjar og fimleikaatriði þar sem piltar úr fimleikadeild Stjörnunnar sýndu stökkæfingar.  Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, þ.e. til einstaklinga sem hlutu Íslands-, bikar- eða deildarmeistaratitla eða settu Íslandsmet, í þetta sinn voru það 203 einstaklingar sem voru með 261 titil eða met á síðasta ári. 
Alls hlutu 27 einstaklingar viðurkenningar fyrir A-landsliðsþátttöku og 22 einstaklingar fengu viðurkenningu fyrir þátttöku með yngra landsliði.  Einnig hlutu 26 einstaklingar viðurkenningu fyrir árangur á erlendum vettvangi, EM, NM eða sambærilegt. 

Viðurkenningar á hátíðinni - nafnalisti (pdf-skjal)

Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs og í ár voru það eftirtaldir einstaklingar sem fengu þær viðurkenningar: Ágúst Þorsteinsson fyrir skátastarf, Ágústa Jóhanna Jóhannesdóttir fyrir starf að fimleikum, Hanna Lóa Friðjónsdóttir fyrir starf að fimleikum og Jóhann Steinar Ingimundarson fyrir félagsstörf. Sjá nánar í frétt hér.

Íþróttakona Garðabæjar 2015

Andrea Sif Pétursdóttir, fimleikakona úr Stjörnunni
Árangur Andreu og liðsins hennar á árinu 2015 var sérlega glæsilegur. Fyrsta sæti á fyrirtækjamóti FSÍ, WOW-mótinu,  annað sæti á bikarmóti FSÍ og fyrsta sæti á Íslandsmóti FSÍ. Auk þess varð lið hennar Íslandsmeistari á trampólíni og dýnu. Deildarmeistarar FSÍ og í nóvember norðurlandameistarar í hópfimleikum 2015. Andrea Sif er frábær fimleikakona sem veit að árangur næst ekki án fyrirhafnar. Hún er einstök fyrirmynd yngri iðkenda sem og þeirra eldri. Hún er hógvær og fagmannleg og veit hvað þarf til að bæta sig. Það sem meira er, hún hefur viljann og gefur allt í að ná lengra. Hún er framúrskarandi í fimleikasalnum, enda sýnir hún mikla leiðtogahæfileika og er vinnusöm í salnum.  Andrea setur ávallt þjálfunina og liðið sitt í forgang.

Íþróttakarl Garðabæjar 2015

Dagfinnur Ari Normann, kraftlyftingamaður úr Stjörnunni

Dagfinnur Ari Normann er kraftlyftingamaður og hefur æft íþróttina með Lyftingadeild Stjörnunnar síðan 2011 og lengur á eigin vegum.  Áhersla hans er á keppnisgreinarnar, hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu.
Í vor keppti Dagfinnur fyrir Íslands hönd á NM unglinga í klassískum kraftlyftingum í Finnlandi. Hann gerði sér lítið fyrir og sótti Norðurlandameistaratitilinn ásamt því að setja Íslandsmet í bekkpressu. Síðar á árinu varð hann svo Íslandsmeistari á báðum Íslandsmeistaramótunum í hefðbundnum og klassískum kraftlyftingum. Hann setti Íslandsmet í öllum greinum á báðum mótunum og eftir árið á Dagfinnur öll Íslandsmet í sínum flokki ásamt nokkrum öðrum, 25 met samtals. Dagfinnur er öðrum til fyrirmyndar, hvort sem litið er til ástundunar, matarræðis eða félagsanda. Hann hefur ávallt sýnt mjög íþróttamannslega framkomu á vegum félagsins og er mjög vel liðinn af öllum sem verða á vegi hans. Dagfinnur hefur aðstoðað við þjálfun og leiðsögn á nýjum meðlimum og tekið virkan þátt í félagsstörfum.

Lið ársins 2015

Stjarnan, meistaraflokkur kvenna í hópfimeleikum -  ásamt þjálfara sínum Niclaes Jerkeholt

Andrea Sif Pétursdóttir, Anna Sigríður Guðmundsdóttir, Hekla Mist Valgeirsdóttir, Íris Arna Tómasdóttir, Kolbrún Þöll Þorradóttir, María Líf Reynisdóttir, Marín Elvarsdóttir, Sara Margrét Jóhannesdóttir, Steinunn Anna Svansdóttir, Tinna Dröfn Ólafsdóttir, Þórdís Ólafsdóttir, Þórey Ásgeirsdóttir,Tara Ósk Ólafsdóttir, Valdís Ellen Kristjánsdóttir, Harpa Guðrún Hreinsdóttir, Andrea Rós Jónsdóttir, Tanja Ólafsdóttir.

Meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum sýndi  frábæran árangur á árinu þar sem liðið toppaði sig með hverju mótinu á fætur öðru. Liðið sigraði WOW hópfimleikamótið þann 21. febrúar með miklum glæsibrag. Stelpurnar komu, sáu og sigruðu á Íslandsmeistaramótinu í hópfimleikum sem fram fór í Ásgarði þann 17. apríl 2015. Stjörnukonur urðu meistarar eftir harða baráttu við Gerplu en munurinn á liðunum fyrir lokaumferðina var einungis 0,383 stig.  Stjarnan sigraði örugglega með 56,116 stigum. Í nóvember toppuðu stelpurnar sig enn og aftur þegar liðið tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn, í fyrsta skipti í sögu félagsins í hópíþrótt,  með frábærum æfingum fyrir troðfullu húsi í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda. Keppnin var æsispennandi, en Stjarnan sigraði með 57,933 stig.
Meistaraflokkslið Stjörnunnar í hópfimleikum er sannkölluð fyrirmynd fyrir bæði börn og fullorðna þar sem leikgleðin, ástríðan fyrir íþróttinni og félaginu ráða för. Meistaraflokkslið kvenna í hópfimleikum er sannarlega verðugt sem Garðarbæjarlið ársins.