19. jan. 2018

Öflug nágrannavarsla mikilvæg

Síðustu daga og vikur virðist hafa verið mikið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu og þar á meðal í Garðabæ.

  • Flatahverfi
    Flatahverfi

Síðustu daga og vikur virðist hafa verið mikið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu og þar á meðal í Garðabæ. Beðið er eftir upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um nákvæman fjölda innbrota hér í bænum upp á síðkastið.

,,Það er ólíðandi ástand að verið sé að brjótast inn á heimili fólks hér í bænum sem og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og við hjá Garðabæ viljum koma í veg fyrir þessa þróun“ segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri sem hefur óskað eftir fundi með Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Skúla Jónssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni og stöðvarstjóra á lögreglustöðinni í Hafnarfirði og Þórhalli Ólafssyni framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar. Á þeim fundi á m.a. að ræða um með hvaða hætti best verður staðið að öryggi borgaranna, þar með talið áframhaldandi samstarf um uppsetningu fleiri öryggismyndavéla. Nýverið var sett upp eftirlitsmyndavél við innkomu á Álftanes og hefur sú vél þegar reynst vel.

Innleiðing nágrannavörslu – samstarfsverkefni Garðabæjar og lögreglu

Garðabær hefur á undanförnum árum staðið að innleiðingu nágrannavörslu í hverfum bæjarins í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Með vorinu stendur til að halda innleiðingarfund um nágrannavörslu í einu nýjasta hverfi bæjarins, Urriðaholti. Einnig hafa verið haldnir upplýsingafundir með svokölluðum götustjórum nágrannavörslu. Íbúar eru áfram hvattir til að vera vel vakandi í sínu nærumhverfi og að fylgjast með húsum nágranna sinna. Nágrannavarslan er gott forvarnartæki, hægt er að finna ýmsar nytsamlegar upplýsingar um nágrannavörslu á vef Garðabæjar, gardabaer.is/mannlif/nagrannavarsla.

Góð ráð nágrannavörslu

Mikilvægt er að ganga vel frá húsum þegar þau eru mannlaus, læsa alltaf húsum þótt farið sé frá í stuttan tíma. Það sama gildir um bíla, læsa þeim alltaf þegar þeir standa tómir. Hér að neðan eru nokkrar ábendingar til íbúa um frágang á húsum sem mikilvægt er að hafa í huga:
• Læsa húsum alltaf, og loka gluggum vel með krækjum og stormjárnum
• Hafa ljós í húsinu, hægt að notast t.d. við innstunguklukkur sem kveikja á lömpum á vissum tímum
• Hreyfinemar á útiljósum þannig að þau kvikni þegar umgangur er
• Loka bakgarði og öðrum stöðum þar sem hægt er að athafna sig úr augsýn
• Ekki hafa aukalykla á aðgengilegum stöðum
• Viðvörunarkerfi tengd öryggisfyrirtæki
• Öryggismyndavélar á húsum hafa fælingarmátt

Allar ábendingar eiga að berast til lögreglunnar í síma 444-1000 (þjónustuver) og í neyðartilfellum á alltaf að hringja í neyðarlínuna 112.

Hjálpumst að við að gera bæinn okkar að öruggum stað til að búa á.