12. jan. 2018

Bjóðum í samtal - íbúafundir í janúar og febrúar

Í janúar og febrúar verða haldnir íbúafundir með Gunnari Einarssyni bæjarstjóra og sviðsstjórum Garðabæjar þeim Margréti Björk Svavarsdóttur forstöðumanni fræðslu- og menningarsviðs, Bergljótu Sigurbjörnsdóttur forstöðumanni fjölskyldusviðs og Eysteini Haraldssyni forstöðumanni tækni- og umhverfissviðs.

  • Bjóðum í samtal
    Bjóðum í samtal

Í janúar og febrúar verða haldnir íbúafundir með Gunnari Einarssyni bæjarstjóra og sviðsstjórum Garðabæjar þeim Margréti Björk Svavarsdóttur forstöðumanni fræðslu- og menningarsviðs, Bergljótu Sigurbjörnsdóttur forstöðumanni fjölskyldusviðs og Eysteini Haraldssyni forstöðumanni tækni- og umhverfissviðs.  Auk þeirra verða fleiri starfsmenn bæjarskrifstofunnar á fundunum.  Íbúar Garðabæjar eru hvattir til að mæta á fundina og taka þátt í uppbyggilegu samtali um hvernig við getum unnið saman að því að bæta þjónustu og efla samfélagið okkar. 

Hverfafundir

Íbúafundirnir verða haldnir miðvikudagana 17., 24. og 31. janúar og 7. febrúar frá kl. 17:30-19:00.  Fundirnir eru upplýsinga- og samráðsfundir þar sem boðið er í samtal starfsmanna Garðabæjar og íbúa.  Bænum hefur verið skipt niður í hverfi fyrir fundina en hverfaskiptingin er eingöngu leiðbeinanandi og allir fundir eru opnir öllum og íbúar geta mætt á þann fund sem hentar best.   Boðið verður upp á súpu og brauð á fundunum. 

Umræða og dagskrá fundanna

Á dagskrá fundanna verður m.a. inngangur frá bæjarstjóra, rætt um nágrannavörslu, öryggi og þjónustu, farið yfir helstu framkvæmdir í nærumhverfi og skipulagsmál,  kynning á ákveðnum verkefnum fræðslu- og fjölskyldusviðs,  umræður og fyrirspurnir bæjarbúa.  Þar verða teknar fyrir bæði innsendar fyrirspurnir sem bæjarbúar geta sent inn fyrir hvern fund en einnig fyrirspurnir úr sal.

Um hvað vilt þú tala?  Fyrirspurnir og umræðuefni

Fyrirspurnir eða tillögur að umræðuefnum má senda inn fyrirfram í gegnum ábendingaform hér á vef Garðabæjar.
Hver fundur verður sendur út beint á netinu í gegnum vef Garðabæjar, gardabaer.is, en einnig verður tekin saman fundargerð eftir hvern fund sem verður birt á vef bæjarins.  Allar ábendingar og/eða fyrirspurnir sem berast á fundunum verða skráðar niður og teknar til skoðunar og lagðar fyrir bæjarráð Garðabæjar.  

Fyrsti fundurinn miðvikudaginn 17. janúar kl. 17:30 í sal Toyota

Fyrsti íbúafundurinn verður haldinn miðvikudaginn 17. janúar kl. 17:30 og þar eru íbúar Urriðaholts, Vífilsstaða og Hnoðraholts sérstaklega velkomnir.  Fundurinn verður haldinn í fundarsal Toyota í Kauptúni.   Næsti fundur á eftir verður haldinn miðvikudaginn 24. janúar í hátíðarsalnum í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi.  Síðustu fundirnir verða haldnir í sal Sjálandsskóla 31. janúar og í sal Flataskóla 7. febrúar.   
Sjá einnig upplýsingar um fyrsta íbúafundinn hér í viðburðadagatalinu.