40 ára afmæli - fjölbreyttir viðburðir framundan
Garðabær fagnar 40 ára afmæli sínu á árinu 2016 en sveitarfélagið fékk kaupsstaðarréttindi 1. janúar 1976. Tímamótunum er fagnað á margvíslegan hátt og meðal annars er vakin er athygli á ýmsum föstum viðburðum í menningarlífi bæjarins. Haldið verður upp á afmælið með hátíð í miðbæ Garðabæjar fyrstu helgina í september. Á árinu verður einnig boðið upp á fjölbreyttar sögu- og fræðslugöngur um bæjarlandið og næsta ganga er fyrirhuguð 10. maí nk. þegar haldið verður í fuglaskoðun um Álftanes. Þessa dagana stendur Jazzhátíð Garðabæjar sem hæst, Þriðjudagsklassík hefst á ný í næstu viku og Listadagar barna og ungmenna eru haldnir í sjöunda skipti dagana 21. apríl - 1. maí.
Viðburðir á vef Garðabæjar
Viðburðir í Garðabæ á árinu sem framundan er verða kynntir hér í fréttunum á vef Garðabæjar og í viðburðadagatalinu. Einnig er hægt að fylgjast með á fésbókarsíðu Garðabæjar og á instagram síðu bæjarins. Garðbæingar geta líka tekið þátt í afmælisári Garðabæjar með því að deila fallegum myndum úr bænum á instagram með myllumerkinu #gardabaer40 . Myndir merktar myllumerkinu birtast á forsíðu Garðabæjarvefsins.
Afmælisblöð
Gefin hafa verið út tvö afmælisblöð á árinu sem fylgdu með Garðapóstinum. Nýjasta afmælisblaðið fylgdi Garðapóstinum 20. apríl sl. Í blaðinu má lesa grein eftir Baldur Ó. Svavarsson arkitekt þar sem hann rifjar upp bernskuminningar úr Silfurtúninu, einnig eru viðtöl við tvo Garðbæinga sem fagna fertugsafmæli á árinu. Fjallað er um vígsluafmæli Garðakirkju, sögumolarnir eru á sínum stað og fjallað er um viðburði framundan.
Hér á vef Garðabæjar er hægt að sjá meiri umfjöllun um afmælisárið.