11. maí 2012

Jazzhátíð framundan

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin í sjöunda sinn frá fimmtudegi til laugardags 17-19. maí nk. Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi frá upphafi er Sigurður Flosason tónlistarmaður og fyrrum bæjarlistamaður Garðabæjar. Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin í sjöunda sinn frá fimmtudegi til laugardags  17-19. maí nk.  Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi frá upphafi er Sigurður Flosason tónlistarmaður og fyrrum bæjarlistamaður Garðabæjar.  Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki  í Garðabæ.  Jazzhátíðin hefur ávallt leitast við að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá við allra hæfi með bestu jazztónlistarmönnum landsins sem margir hverjir eiga rætur sínar að rekja til Garðabæjar.   

Fjölbreytt dagskrá

Hátíðin hefst með veglegum opnunartónleikum fimmtudagskvöldið 17. maí kl. 20.30 í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ með sannkallaðri tónlistarveislu. Þar mætir 18 manna stórsveit Samúels og trukkar út fönkblönduðum jazzi með krafti, spilagleði og líflegri framkomu sem á sér enga líka.

Föstudaginn 18. maí verður boðið upp á tónleika að degi til fyrir eldri borgara í Garðabæ og síðar sama dag verður hægt að njóta ljúfra jazztóna á Garðatorgi við Íslandsbanka og  við verslunarkjarnann í Litlatúni.  Það er hljómsveitin Reykjavík Swing Syndicate með Hauk Gröndal í fararbroddi sem swingar fyrir eldri borgara, Garðbæinga á förnum vegi og alla sem vilja.

Um kvöldið á föstudeginum verður unga kynslóðin í aðalhlutverki á tónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju.  Þar koma fram Stórsveit  og Smásveit Tónlistarskóla Garðabæjar undir stjórn þeirra Braga Vilhjálmssonar og handleiðslu Ómars Guðjónssonar.  Einnig stígur á stokk hljómsveitin Ídúrogmoll sem er skipuðum ungum og efnilegum tónlistarmönnum, þeim Örnu Margréti Jónsdóttur, Eyrúnu Engilbertsdóttur, Aroni Erni Óskarssyni, Hjörvari Hans Bragasyni og Helga Kristjánssyni.

 Hátíðinni lýkur á laugardagskvöldinu  19. maí með tónleikum hljómsveitarinnar ADHD í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli.  Fremst í fararbroddi eru bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir sem leika á gítar og saxófón.  Ómar Guðjónsson var í fyrra útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar.  Með þeim bræðrum leika Davíð Þór Jónsson á Hammond orgel og Magnús Tryggvason Elíassen á trommur.  Hin vinsæla og marglofaða hljómsveit ADHD galdrar fram einstaka stemmningu á mörkum popp- og jazztónlistar. 

Ókeypis aðgangur

Aðgangur er ókeypis á alla tónleika jazzhátíðarinnar og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Hátíðin hefur vaxið og dafnað með árunum og íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa fjölmennt á hátíðina. Dagskráin er aðgengileg hér.