27. apr. 2012

Leikskólar bjóða heim

Leikskólar í Garðabæ bjóða bæjarbúum á opið hús laugardaginn 28. apríl nk. Er sá dagur valinn í tengslum við Listadaga barna og ungmenna. Verk barnanna yfir veturinn eru sýnd, bækur, ljósmyndir og leikföng eru látin liggja frammi
  • Séð yfir Garðabæ

Leikskólar í Garðabæ bjóða bæjarbúum á opið hús laugardaginn 28. apríl nk. Er sá dagur valinn í tengslum við Listadaga barna og ungmenna. Verk barnanna yfir veturinn eru sýnd, bækur, ljósmyndir og leikföng eru látin liggja frammi og einnig er hægt að leika sér á útisvæðum leikskólanna.


Um helmingur leikskóla í bænum er með opið hús frá kl. 10 til 12 og hinn helmingurinn frá kl. 11-13 og þannig gefst tækifæri til að heimsækja fleiri en einn leikskóla fyrir áhugasama. Foreldrar væntanlegra leikskólabarna eru sérstaklega boðnir velkomnir og fá þarna gott tækifæri til að kynna sér það sem hver og einn leikskóli hefur upp á að bjóða. Starfsfólkið mun taka vel á móti ykkur. Sjá nánar hér hvenær hver leikskóli er með opið hús.


 

Opið hús í Króki

Laugardaginn 28. apríl verður einnig opið hús í bænum Króki á Garðaholti frá kl. 13-16.  Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Bærinn er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar. Föndurhorn fyrir börn sem koma í heimsókn þennan dag með fjölskyldum sínum. Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti. Sjá nánari upplýsingar um Krók hér.

Tónleikar í Tónlistarskólanum

Föstudaginn 27.  febrúar halda nemendur í framhaldsáfanga tónleika í sal Tónlistarskólans í Garðabæ frá kl. 16-18 og á laugardeginum 28. apríl eru tvennir burtfarartónleikar. Rebekka Sif Stefánsdóttir heldur burtfaratónleika í söng kl. 15 og kl. 17 á laugardeginum heldur Eydís Helena Evensen burtfarartónleika á píanó. Sjá einnig heimasíðu Tónlistarskólans.

 

Aukasýningar á söngleik

Í félagsmiðstöðinni Garðalundi hafa verið bættar við aukasýningar á söngleiknum We Will Rock You. Söngleikurinn hefur slegið í gegn og næstu sýningar eru laugardaginn 28. apríl og þriðjudaginn 1. maí. Á heimasíðu Garðalundar eru nánari upplýsingar um miðasölu, www.gardalundur.is.

 

Hér á heimasíðu Garðabæjar má sjá alla dagskrána á Listadögum barna og ungmenna.


Listadagaskemmtun á Garðatorgi - spilað á hljóðfæri


Listsýning á Garðatorgi skoðuð