5. júl. 2010

Íslenski safnadagurinn

Íslenski safnadagurinn er haldinn hátíðlegur sunnudaginn 11. júlí nk. Í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ er boðið upp á leiðsögn um opnunarsýningu safnsins.
  • Séð yfir Garðabæ

Sunnudaginn 11. júlí nk. verður haldið upp á íslenska safnadaginn. Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ býður þann dag upp á  leiðsögn við allra hæfi um sýningu safnsins "Úr hafi til hönnunar og hefst leiðsögnin kl. 15:00.

 

“Úr hafi til hönnunar” er opnunarsýning Hönnunarsafns Íslands í nýju húsnæði að Garðatorgi 1. Á sýningunni er fjölbreytt úrval gripa úr roði og fiskleðri eftir íslenska og erlenda hönnuði. Að auki er til sýnis úrval muna úr eigu safnsins sem varpar ljósi á söfnunarsvið þess.

 

 

Hönnunarsafn Íslands er til húsa að Garðatorgi 1 í Garðabæ og er safnið opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Í anddyri safnsins er verslunin Kraum sem selur íslenska hönnun. Þar er einnig barnahorn og boðið upp á nýmalað kaffi.

 

 

Markmið með íslenska safnadeginum er að vekja fólk til vitundar um mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar hinna sameiginlegu verðmæta þjóðarinnar og jafnframt um þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og afþreyingar fyrir alla, sem stofnanir í safnastarfi ástunda.

 

Önnur söfn og minjar

Sunndaginn 11. júlí er einnig opið hús í Króki á Garðaholti frá kl. 13-17. Krókur er gamall burstabær þar sem varðveitt eru gömul húsgögn og munir.  Krókur er opinn almenningi til sýnis alla sunnudaga í sumar frá kl. 13-17. Sjá nánari upplýsingar um Krók hér á heimasíðunni.

 

Minjagarður að Hofsstöðum (við Kirkjulund, við hlið Tónlistarskóla Garðabæjar) er opinn allan sólarhringinn. Þar eru leifar af gömlum landnámsskála frá lokum 9. aldar til sýnis og einnig er þar fjölþætt og fróðleg margmiðlunarsýning á snertiskjáum í garðinum. Sjá nánari upplýsingar hér á heimasíðunni.