30. nóv. 2009

Ljósin tendruð á jólatrénu

Laugardaginn 28. nóvember sl voru ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi. Athöfnin á laugardaginn fór fram í fallegu og björt vetrarveðri og fjölmenni lagði leið sína í nýja garðinn á Garðatorgi þar sem vinabæjarjólatréð stendur.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 28. nóvember sl voru ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.  Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi. Þetta er i fertugasta sinn sem Askerbúar senda Garðabæingum jólatré sem vinatákn í aðdraganda jóla.

 

Athöfnin á laugardaginn fór fram í fallegu og björtu vetrarveðri og fjölmenni lagði leið sína í nýja garðinn á Garðatorgi þar sem vinabæjarjólatréð stendur. Að venju var það blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar sem hóf dagskrána og lék fyrir gesti við góðar undirtektir. Því næst steig formaður Norræna félagsins í Garðabæ, Katrín Káradóttir, á svið og kynnti dagskrána.

 

Sendiherra Noregs á Íslandi Margit Tveiten afhenti tréð fyrir hönd Asker og flutti stutta ræðu á íslensku. Páll Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Garðabæjar veitti trénu viðtöku og fékk svo til liðs við sig tvo unga nemendur úr 3. bekk í Flataskóla þau, Alexander Eðvald Magnússon og Helenu Bryndísi Hauksdóttir, við að tendra ljósin á jólatrénu. Nemendur úr Flataskóla stigu svo á svið og fluttu mörg falleg jólalög í tilefni dagsins.  Að lokum komu tveir jólasveinar fyrr til byggða og skemmtu áhorfendum á öllum aldri með gríni, glens og söng.

 

Í myndasafninu á heimasíðu Garðabæjar má sjá fleiri myndir frá athöfninni sl. laugardag.

 

Margt var um að vera á Garðatorginu þessa helgi og má þar nefna leiksýningu í bókasafninu, opnun myndlistarsýningar í Listasal Garðabæjar, jólamarkað í gamla Hagkaupshúsinu. Auk þess voru verslanir og gallerí með opið hús. 

 


Blásarasveit Tónlistarskólans hóf dagskrána með fallegum tónum.


Frá vinstri: Katrín Káradóttir formaður Norræna félagsins, Margit Tveiten sendiherra Noregs og Páll Hilmarsson forseti bæjarstjórnar.


 


Garðbæingar á öllum aldri mættu á Garðatorgið.


Jólasveinar ásamt efnilegum söngvurum úr Flataskóla.


Ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu.