22. okt. 2009

Nágrannavarsla í hverfum bæjarins

Íbúar á neðri Flötum fylltu sal Flataskóla í gær þegar þeir fjölmenntu á fund um nágrannavörslu. Greinilegt var að íbúar hverfisins ætla að taka nágrannavörsluna föstum tökum og gera hverfið sitt að enn betra og öruggara umhverfi fyrir sig og sína.
  • Séð yfir Garðabæ

Íbúar á neðri Flötum fylltu sal Flataskóla í gær þegar þeir fjölmenntu á fund um nágrannavörslu. Greinilegt var að íbúar hverfisins ætla að taka nágrannavörsluna föstum tökum og gera hverfið sitt að enn betra og öruggara umhverfi fyrir sig og sína.

Öflugasta forvörnin

Garðabær hefur staðið að innleiðingu á nágrannavörslu í hverfum bæjarins í rúmt ár. Nú þegar hafa íbúar í stórum hluta bæjarins sammælst um nágrannavörslu í sinni götu. Með nágrannavörslu ákveða nágrannar að taka höndum saman um að efla öryggi í sínu nánasta umhverfi hvað varðar innbrot, þjófnaði og skemmdarverk. Það er mat lögreglunnar að nágrannavarsla sé öflugasta forvörn sem hægt er að grípa til í því skyni.

Nágrannavarsla í Garðabæ er samstarfsverkefni Garðabæjar og lögreglu höfuðborgarsvæðisins og á fundunum sem íbúar eru boðaðir til fara fulltrúar þessara tveggja aðila yfir það hvernig nágrannavörslu er komið á.

Fleiri hverfi bætast við

Haldið verður áfram að breiða nágrannavörsluna út í vetur og mega íbúar annarra hverfa því eiga von á að fá boð á fund á næstu vikum og mánuðum. Hægt er að lesa um nágrannavörsluna á vef Garðabæjar.