25. jún. 2009

Fjölmenni á Jónsmessugleði

Fjölmenni var á Jónsmessugleði sem var haldin í Garðabæ miðvikudagskvöldið 24. júní frá kl. 20-24. Hátíðarhöldin fóru fram á göngustígnum Strandstíg í Sjálandinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Fjölmenni var á Jónsmessugleði sem var haldin í Garðabæ miðvikudagskvöldið 24. júní frá kl. 20-24. Hátíðarhöldin fóru fram á göngustígnum Strandstíg í Sjálandinu.  Gunnar Einarsson bæjarstjóri setti hátíðina og bauð gesti velkomna.Veðrið var dásamlegt og stórkostlegt útsýni út á hafið og kvöldsólina.

 

Frumkvæði listamanna

Það voru myndlistarmenn í Garðabæ sem höfðu frumkvæði að því að skipuleggja þessa hátíð fyrir bæjarbúa og tilefnið var myndlistarsýning utandyra þar sem um 20 myndlistarmenn sýndu verk sín sem voru sérstaklega búin til fyrir þessa Jónsmessugleði.  Verkin voru staðsett meðfram göngustígnum í áttina að Gálgahrauninu. 

 

Myndlistarmennirnir fengu til liðs við sig fjölmarga aðra listamenn úr bæjarfélaginu og meðal þeirra sem komu fram voru Sigurður Flosason saxófónleikari, Ómar Guðjónsson gítarleikari, Reynir Jónasson á harmonikku, Kvennakór Garðabæjar, Garðakórinn - kór eldri borgara, Árni Guðjónsson og félagar (Helgi Kristjánsson, Arnar Hilmarsson, Erla Axelsdóttir, Ragnar Þórhallsson, Arnór Víðirsson, Árni Guðjónsson, Sigrún Jónsdóttir, Þórhildur Þorleiksdóttir) blásarasveitin Andvaka (Anna Sigurbjörnsdóttir, Emil Friðfinnsson, Erla Axelsdóttir og Jóhann Björn Ævarsson), Brynjar Darri Baldursson, Rúnar Kristmarsson,  listhópur ungs fólks o.fl. Hljómsveitin Smashdown forfallaðist. Einnig voru bæjaryfirvöld þeim innan handar við skipulagningu hátíðarinnar.

 

Frábært hjá skátunum

Skátafélagið Vífill hafði umsjón með eldum sem sköpuðu góða stemningu meðfram sjávarsíðunni. Einnig buðu þau ungmennum að grilla sykurpúða við góðar undirtektir. Í víkinni mátti einnig sjá börn úr kajakklúbbi Sjálandsskóla sem sigldu á kajökum og skáta úr Vífli sem sigldu kanóum.

 

Gefum, gleðjum og njótum

Yfirskrift hátíðarinnar var GEFUM, GLEÐJUM OG NJÓTUM og ber að fagna öllum þeim listamönnum og félögum sem stóðu að henni.  Vel tókst til og stefnt er að því að halda aftur Jónsmessugleði í Garðabæ.

 

Hér í myndasafni Garðabæjar eru myndir frá Jónsmessugleðinni.