10. feb. 2012

Safnanótt í Garðabæ

Föstudagskvöldið 10. febrúar nk. verður haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 19-24. Í Garðabæ verður boðið upp á dagskrá í Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands. Einnig verður opnað hluta kvölds í Króki á Garðaholti
  • Séð yfir Garðabæ

Föstudagskvöldið 10.  febrúar nk. verður haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 19-24.  Í Garðabæ verður boðið upp á dagskrá í Bókasafni Garðabæjar og Hönnunarsafni Íslands.  Einnig verður opnað hluta kvölds í Króki á Garðaholti  og minjagarðurinn að Hofsstöðum er opinn allan sólarhringinn. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík og þriðja árið í röð taka nú fjölmörg söfn af öllu höfuðborgarsvæðinu þátt.  Þema Safnanætur í ár er ,,Magnað myrkur“.

Dagskrá í Hönnunarsafninu - opnun sýningar - óhefðbundin myrkraleiðsögn

Í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg verður formleg opnun á sýningu er nefnist  Sjálfsagðir hlutir.  Allir eru velkomnir á opnuna kl. 19 og í framhaldi af opnuninni verður fjölskyldusmiðja á staðnum í tengslum við sýninguna.   Síðar um kvöldið verður boðið upp á óhefðbundna myrkraleiðsögn með Nönnu Kristínu Magnúsdóttur leikkonu.  Sú leiðsögn fer fram kl. 21 og verður endurtekinn kl. 22.30 um kvöldið.  Allir eru velkomnir og fjölskyldur eru hvattar til að koma saman og heimsækja Hönnunarsafnið.  Aðgangur er ókeypis og á jarðhæð er skemmtilegt barnahorn fyrir yngstu börnin. 

Dagskrá í Bókasafninu - söngur  og tónlist- áhugaverður fyrirlestur

Bókasafn Garðabæjar verður með opið frá kl. 19-24 á föstudagskvöldinu og heitt verður á könnunni fyrir gesti og gangandi.   Eins og undanfarin ár  verður boðið upp á skemmtilega tónlist og áhugavert fræðsluerindi. Dagskráin í bókasafninu hefst kl. 20.00 með söng Önnu Maríu Björnsdóttur og meðleikara.   Anna María er ung og efnileg söngkona úr Garðabænum og hún flytur eigin lög í um hálftíma.  Því næst eða um 20.45 tekur Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur við og flytur erindi er nefnist Draugar, galdramenn og dulúðugir staðir í Garðabæ.  


Anna María Björnsdóttir söngkona

Draugasögulestur í Króki

Leiklistarnemendur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ ætla að bjóða fólki að hlusta á leiklestur draugasögu í burstabænum Króki á Garðaholti.  Þeir sem vilja geta fengið far með rútu sem leggur af stað um 21.30 frá Bókasafninu á Garðaholtið en einnig er hægt að fara á eigin bíl á staðinn.  Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. (Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti).  Leiklesturinn hefst um kl. 21.45 í Króki og gestum verður einnig boðið að skoða húsið.  Rúta fer tilbaka á Garðatorgið að loknum leiklestri.


Garðbæingar og aðrir góðir gestir eru velkomnir í söfnin á Safnanótt!
Sjá tímasetta dagskrá hér í dagbókinni á heimasíðunni.