Ný félagsmiðstöð í Hofsstaðaskóla sett á laggirnar
Þessa dagana eru spennandi hlutir að gerast í Hofsstaðaskóla en ný félagsmiðstöð fyrir 7. bekkinga opnar í næstu viku. Starfið var kynnt fyrir nemendum við góðar undirtektir.
Í næstu viku opnar ný félagsmiðstöð fyrir 7. bekkinga í Hofsstaðaskóla. Ari Sverrir Magnússon, aðstoðarumsjónarmaður í frístundaheimilinu Regnboganum, hefur umsjón með starfinu. Hluti starfsfólks úr Regnboganum kemur einnig að starfinu sem fer fram í húsnæði Regnbogans í Hofsstaðaskóla.
Ari Sverrir ásamt Tómasi Þór Jacobsen, forstöðumanni félagsmiðstöðvarinnar í Sjálandsskóla, hittu nemendur í 7. bekk í Hofstaðaskóla í síðustu viku og kynntu starf félagsmiðstöðvarinnar fyrir þeim en Tómas hefur aðstoðað við undirbúning.
Núna stendur yfir keppni meðal nemendanna um val á nafni og lógó-i fyrir félagsmiðstöðina.
Hugmyndirnar flæða inn
„Þegar starfið var kynnt fyrir krökkunum myndaðist strax mikill spenningur. Hugmyndir að nöfnum hafa flætt inn og því er úr nógu að velja. Brátt fá krakkarnir svo að kjósa um heiti á félagsmiðstöðina. Þetta er stórt skref sem Hofsstaðaskóli er að taka og það er sannur heiður að fá að taka þátt í þessari uppbyggingu hjá þeim,“ segir Ari.
Félagsmiðstöðin Hofsstaðaskóla opnar 23. janúar og verður opið til skiptis á miðvikudögum og fimmtudögum.