12. maí 2022

Ný reiðhöll Sóta á Álftanesi vígð

Þriðjudaginn 10. maí sl. var ný reiðhöll hestamannafélagsins Sóta á Álftanesi vígð. Fulltrúar úr bæjarstjórn Garðabæjar ásamt forsvarsmönnum Sóta klipptu sameiginlega á borða við þetta tækifæri og ungmenni úr hestamannafélaginu sýndu listir sínar á fögrum fákum í reiðhöllinni.

Þriðjudaginn 10. maí sl. var ný reiðhöll hestamannafélagsins Sóta á Álftanesi vígð. Við vígsluna fluttu þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, og Jörundur Jökulsson formaður Sóta stuttar ræður. Fulltrúar úr bæjarstjórn Garðabæjar ásamt forsvarsmönnum Sóta klipptu sameiginlega á borða við þetta tækifæri og ungmenni úr hestamannafélaginu sýndu listir sínar á fögrum fákum í reiðhöllinni.  Reiðhöllin er um 800m2 að stærð og er staðsett við hesthús og reiðvöll hestamannafélagsins við Suðurnesveg.

Reiðhöllin hefur verið í byggingu frá lok árs 2019 (sjá frétt hér frá fyrstu skóflustungunni), hestamannafélagið Sóti sá alfarið um byggingu hússins, gerð bílastæða og frágang lóðar en Garðabær veitti fjárframlag til framkvæmdarinnar.  

Tilkoma reiðhallarinnar hefur þegar haft mikil og góð áhrif á starf Sóta og sérstaklega á barna- og unglingastarf félagsins þar sem aðstaða til reiðkennslu er nú betri allan ársins hring. Samkvæmt samkomulagi Garðabæjar og Sóta getur Garðabær fengið afnot af húsnæðinu vegna íþrótta- og æskulýðsstarfs, sýninga o.fl. raski það ekki skipulögðu og reglubundnu starfsemi hestamannafélagsins.

Hestamannafélagið Sóti á Álftanesi

Hestamannafélagið Sóti var stofnað árið 1989 á Álftanesi. Félagið ber nafn sitt af Sóta sem var nafntogaður hestur Gríms Thomsen. Sagan segir að Grímur hafi keypt hann austur í Hornafirði og lét senda hann til Danmerkur þar sem Grímur var við nám, sagt er að Friðrik VII konungur Danmerkur hafi falast mjög eftir hestinum en án árangurs. Þegar Grímur flutti aftur til landsins kom hann með Sóta með sér og hélt hann á Bessastöðum þar sem hann var heygður með öllum reiðtygjum. Sóti er því einn af fáum brottfluttum íslenskum hestum sem komið hafa aftur heim.

Upplýsingar um Sóta má sjá á vef félagsins og á fésbókarsíðu Sóta.