28. apr. 2022

Opnunarhátíð Miðgarðs

Laugardaginn 30. apríl kl. 13-16 verður opnunarhátíð Miðgarðs, fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri í Garðabæ. Allir velkomnir!

  • Opnunarhátíð Miðgarðs 30. apríl kl. 13-16
    Opnunarhátíð Miðgarðs

Bæjarbúar eru velkomnir á opnunarhátíð Miðgarðs, fjölnota íþróttahússins í Vetrarmýri, laugardaginn 30. apríl nk. frá kl. 13-16. Fjölbreytt skemmtidagskrá verður í boði á opnunarhátíðinni og gestum gefst kostur á að skoða íþróttamannvirkið sem þegar er komið í notkun fyrir æfingar en fyrsta æfingin var haldin í húsinu í febrúar á þessu ári.

Á hátíðinni verða flutt stutt ávörp bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar, bæjarlistamenn Garðabæjar leikararnir Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors bæjarlistamenn Garðabæjar 2021 koma fram, þeir bræður Ómar og Óskar Guðjónssynir flytja ljúfa tóna í anddyri hússins og Dj Dóra Júlía þeytir skífum. Helgi Björnsson og Reiðmenn vindanna stíga á stokk og fá til sín góða gesti úr Garðabæ. Boðið verður upp á þrautabraut og andlitsmálningu fyrir börn. Íþróttafélög bæjarins verða með kynningu á íþróttastarfi sínu. Kaffi, djús og kleinur verða í boði fyrir gesti og gangandi.

Sjá einnig tímasetta dagskrá hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar.

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar

Nafnið Miðgarður

Garðabær efndi haustið 2021 til nafnasamkeppni um nafn á nýja fjölnota íþróttahúsinu í Garðabæ sem var öllum opin og íbúar hvattir til að taka þátt í. Nafn hússins, Miðgarður, var svo tilkynnt formlega í janúar á þessu ári. Samkvæmt goðafræðinni er Miðgarður miðja heimsins og sá staður þar sem mannfólkið býr. Það rímar vel við hugmyndir um fjölnota íþróttahúsið þar sem vonast er eftir lífi og fjöri á degi hverjum ásamt því að þar verður rými fyrir fjölbreytt viðfangsefni.

Fjölmargir bæjarbúar tóku þátt í nafnasamkeppninni og á opnunarhátíðinni á laugardaginn verða afhentar viðurkenningar til þeirra sem sendu inn tillögu um nafnið Miðgarð.


Fjölbreytt rými og æfingaaðstaða í Miðgarði

Bygging Miðgarðs er ein stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í. Garðabær samdi við Íslenska aðalverktaka (ÍAV) um alútboð á verkinu í lok árs 2018 en framkvæmdir hófust í byrjun árs 2019. Hönnuðir hússins eru ASK arkitektar og Verkís verkfræðistofa sá um verkfræðihönnun og ÍAV byggði húsið. Fyrsta æfingin í húsinu fór fram í byrjun febrúar og húsið hefur verið vel nýtt síðan.

Miðgarður er með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð og klifurvegg innanhúss auk teygju- og upphitunaraðstöðu og fyrsta flokks styrktar- og þrekæfingaaðstöðu, ásamt tilheyrandi stoðrýmum og verður því mikil lyftistöng fyrir íþrótta- og heilsueflandi starfsemi í Garðabæ. Stærð íþróttasalarins er um 80x120 m og um 800 áhorfendur rúmast á svölum íþróttasalarins. Í hliðarrýmum sunnan megin í byggingunni eru tvær óráðstafaðar hæðir um 1500 m² að stærð hvor um sig þar sem er gert ráð fyrir heilsutengdri starfsemi. Með anddyri og öðrum stoðrýmum er flatarmál hússins um 18.200 m².

Opnunarhátíð Miðgarðs