Sýna „magnaða óperu“ Puccini í Tónlistarskóla Garðabæjar
Listakonurnar úr sviðslistahópnum Gjallandi hlutu styrk úr Hvatningarsjóði til að setja upp óperuna Suor Angelica eftir Puccini í sumar. Verkið verður sýnt 9. og 11. júlí í sal Tónlistarskóla Garðabæjar klukkan 20.
-
Listakonurnar úr sviðslistahópnum Gjallandi hlutu styrk úr Hvatningarsjóði til að setja upp óperuna Suor Angelica eftir Puccini í sumar. Verkið verður sýnt 9. og 11. júlí í sal Tónlistarskóla Garðabæjar.
Bryndís Ásta Magnúsdóttir, sópransöngkona, er ein þeirra listamanna sem hlaut styrk úr Hvatningarsjóði Garðabæjar í ár. Hún ætlar ásamt hópi söngkvenna úr sviðslistahópnum Gjallandi að setja upp óperuna Suor Angelica eftir Puccini í sumar.
Bryndís Ásta lærði söng í Tónlistarskóla Garðabæjar hjá Guðrúnu Jóhönnu Jónsdóttur og tók framhaldspróf þaðan. Í vor útskrifaðist hún svo frá Listaháskólanum með BA-gráðu í söng. Bryndís Ásta lifir og hrærist í tónlist en hún er til að mynda ein þeirra sem stofnaði og skipuleggur listahátíðina Rökkvuna sem bæjarbúar þekkja.
Bryndís Ásta er svo í sviðslistahópnum Gjallandi ásamt þeim Anne Keil, Ástu Sigríði Arnardóttur, Kristrúnu Guðmundsdóttur, Margréti Björk Daðadóttur, Ragnheiði Petru Óladóttur, Steinunni Maríu Þormar. Þær vinna nú að uppsetningu óperunnar Suor Angelica eftir Puccini ásamt píanistanum Ólínu Ákadóttur.
Stelpurnar kynntust í söngnámi við Listaháskóla Íslands þaðan sem þær útskrifuðust og eru allar í dag starfandi við tónlist eða í framhaldsnámi.
Allur tilfinningaskalinn
„Óperan Suor Angelica er ópera úr þríleik Puccinis; Il Trittico, og er því bara einn þáttur, klukkustund að lengd. Hún á sér stað í 17. aldar klaustri á Ítalíu og fjallar um nunnur og aðstandendur þeirra. Þar sem einungis eru konur í óperunni og Gjallandi er með þá sérstöðu að vera sviðslistahópur skipaður konum, þá hentar þessi ópera okkur sérstaklega vel. Sagan er af Suor Angelica (systir Angelica) sem er send í klaustur eftir að hafa eignast barn utan hjónabands. Hún hefur verið í klaustrinu í sjö ár þegar frænka hennar kemur í fyrsta sinn í heimsókn, og þá með þungar fréttir. Óperan á sér stað yfir einn dag, maður sér og heyrir morgunsöng nunnanna og þeirra daglegu störf - þar til frænkan kemur í heimsókn þegar fer að kvelda. Suor Angelica sést svo vinna úr fréttunum sem frænkan færir og endar óperan á söng englakórs. Þetta er mögnuð ópera sem í einfaldleika sínum leikur á allan tilfinningaskalann, maður fer úr hlátri yfir í grátur. Tónlistin endurspeglar hugsanir, og við í Gjallanda erum sérstaklega hrifnar af kóraköflunum sem er nóg af í óperunni,“ segir Bryndís Ásta þegar hún er beðin um að segja frá verkinu sem þær setja upp.
Óperan verður sýnd 9. og 11. júlí í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Miða er hægt að nálgast hérna á Tix.is.
Bryndís Ásta og hópurinn Gjallandi hlutu styrk úr Hvatningarsjóði fyrir unga hönnuði og listamenn til að setja upp óperuna Suor Angelica eftir Puccini. Bryndís Ásta söng fyrir viðstadda við afhendingu styrksins fyrr í sumar.