15. sep. 2022 Umhverfismál

Fráveitumál í Garðabæ

Í ljósi mikillar uppbyggingar í Hafnarfirði og þar með auknu álagi á fráveitu Hafnarfjarðar sem hefur í för með sér takmarkaða möguleika til að veita áfram viðtöku skólps frá bæjarhverfum Garðabæjar, hefur samningi um móttöku skólps frá árinu 2010 verið sagt upp.

  • Séð yfir Kauptún í átt að Urriðaholti
    Séð yfir Kauptún í átt að Urriðaholti. Ljósmynd: Alta

Árið 2010 gerðu Garðabær og Hafnarfjarðarbær með sér samning um móttöku skólps frá Garðabæ í fráveitu Hafnarfjarðar. Skólpið sem tekið er á móti í Hafnarfirði er frá hverfunum Urriðaholti, Kauptúni og Molduhrauni en skólp úr öðrum bæjarhlutum Garðabæjar fer í gegnum dælustöð við Arnarnesvog í hreinsistöð til Reykjavíkur eða í útrás á Álftanesi.

Í ljósi mikillar uppbyggingar í Hafnarfirði og þar með auknu álagi á fráveitu Hafnarfjarðar sem hefur í för með sér takmarkaða möguleika til að veita áfram viðtöku skólps frá bæjarhverfum Garðabæjar, hefur samningi um móttöku skólps verið sagt upp. Uppsögnin er hluti af samtali starfsmanna bæjarfélaganna um lausnir i fráveitumálum.

Samningurinn við Hafnarfjarðarbæ tók sem fyrr segir gildi árið 2010 og hafa greiðslur frá Garðabæ til Hafnarfjarðar á tímabilinu 2010 til 2021 numið 104,6 milljónum króna en greiðsla á árinu 2021 nam 12,3 milljónum króna.

Framtíðarlausnir í farvatninu

Fyrir liggja áætlanir um framtíðarlausn sem gerir ráð fyrir að skólp frá Urriðaholti, Kauptúni og Molduhrauni fari í útrás á Álftanesi og verður það einnig lausn fyrir fyrirhugaða íbúðarbyggð á Garðaholti. Ljóst er að sú lausn um skólpmál mun ekki liggja fyrir fullhönnuð og komin til framkvæmda innan árs en framundan er að gera tímasetta verkáætlun í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ varðandi framhaldið.

Í viðræðum um framtíðarlausn verður meðal annars horft til sameiginlegra lausna sem geta verið hagkvæmar fyrir bæði bæjarfélög. Meðan þær lausnir liggja ekki fyrir er gert ráð fyrir að samningurinn verði áfram virkur hvað varðar viðtöku skólps og greiðslur.