29. apr. 2021 Menning og listir

Sumarsýning Grósku 2021

Sumarið er framundan og Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, geysist fram á sjónarsviðið aftur. Sumarsýning Grósku verður opin í Gróskusalnum við Garðatorg 1 helgina 1. og 2. maí.

  • Sumarsýning Grósku 2021
    Sumarsýning Grósku 2021.

Sumarið er framundan og Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, geysist fram á sjónarsviðið aftur. Sumarsýning Grósku verður opin í Gróskusalnum við Garðatorg 1 helgina 1. og 2. maí. Hefð hefur verið fyrir þessari sýningu í Garðabæ en ekkert hefðbundið er þó við hana heldur einkennist hún af frumleika í ólíkum verkum og uppsetningu. 

Um er að ræða salonsýningu með 37 sýnendum og um 130 listaverkum: málverkum, vatnslitamyndum, glerlist, skúlptúrum úr ýmsum efnum o.fl. Eins og tíðkast á slíkum sýningum eru myndir hengdar upp þétt saman frá gólfi og upp undir loft og þetta skapar sprengikraft. Sýningarstjórn þessarar margbrotnu sýningar er í öruggum höndum Birgis Rafns Friðrikssonar myndlistarmanns en hann hefur mikla reynslu á þessu sviði. 

Í tengslum við sýninguna er einnig í vinnslu myndband með spjalli við listamennina og verður það birt á netinu síðar. Hin hæfileikaríka Rebekka Jenný Reynisdóttir myndlistarmaður og skáld stjórnar þessum hluta verkefnisins.

Gróska er stórt og virkt myndlistarfélag sem stendur fyrir allnokkrum sýningum og viðburðum yfir árið. Tilgangurinn er að styrkja samstarf myndlistarmanna í Garðabæ, efla og gera myndlistina sýnilegri og auka myndlistaráhuga. Starfsemin hefur borið árangur og Gróska hefur fest sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar. 

Sumarsýning Grósku í viðburðadagatali.

Fésbókarsíða Grósku

Sumarsýning Grósku 2021