10. jan. 2025

„Þetta er dýrðarstund hérna á morgnana“

Margt fólk mætir reglulega í Miðgarð til að nýta göngubrautina á svölum íþróttasalarins og þykir það ómissandi, sér í lagi þegar hálka og kuldi er úti.

Í íþróttahúsinu Miðgarði við Vetrarbraut er frábær aðstaða til hvers kyns íþróttaiðkunar, meðal annars er þar 400 metra göngubraut á svölum íþróttasalarins og er öllum frjálst að nota hana á opnunartíma hússins þegar ekki eru viðburðir með áhorfendum.

Göngubrautin er opin allan ársins hring og hefur hún notið mikilla vinsælda, ekki síst yfir vetrartímann þegar kuldi og hálka setur strik í reikninginn.

Margt fólk hefur lagt það í vana sinn að mæta reglulega í Miðgarð til að fá sína hreyfingu og hefur jafnvel myndast skemmtilegur félagsskapur í kringum þetta hreyfiúrræði þar sem hópur fólks sest niður eftir æfingu í spjall og kaffi.

Hitamælirinn sýndi -9° þegar við litum við í Miðgarð og tókum þar þrjá fastagesti tali, þau Bjarna Geirsson, Hallveigu Hilmarsdóttur og Ingimund Sigurpálsson. „Þetta er dýrðarstund hérna á morgnana,“ sagði Bjarni sem er einn þeirra sem finnst ómissandi að mæta í Miðgarð á morgnanna, hreyfa sig og fá sér svo kaffibolla eftir á.

„Hér er fjöldi fólks yfirleitt þegar ég mæti á morgnana,“ sagði Ingimundur, fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar.

Íþróttahúsið Miðgarður er opið frá 08:00 til 22:00 virka daga. Um helgar er opið á laugardögum frá 9:00-18:00 og á sunnudögum frá 10:00-18:00.