Þjálfarar ársins og lið ársins 2025 í Garðabæ
Íþróttahátíð Garðabæjar 2026 var haldin í Ásgarði þar sem íþróttafólk ársins 2025 í Garðabæ var útnefnt og viðurkenningar veittar fyrir framúrskarandi árangur á ýmsum sviðum íþrótta.
Tilkynnt var um valið á íþróttafólki ársins 2025 í Garðabæ á Íþróttahátíð Garðabæjar. Íþróttakona ársins 2025 í Garðabæ er Lucie Martinsdóttir Stefaniková, kraftlyftingakona, og íþróttakarl ársins 2025 í Garðabæ er Jón Þór Sigurðsson, skotíþróttamaður. Hérna má lesa umsagnir um Lucie og Jón Þór.
Á hátíðinni voru einnig veittar viðurkenningar til þjálfara ársins og liðs ársins. Lið ársins 2025 er meistaraflokkur karla í körfubolta hjá Stjörnunni. Þjálfarar ársins 2025 eru þjálfarateymi meistaraflokka fimleikadeildar Stjörnunnar
Lið ársins 2025 – Meistaraflokkur karla í körfubolta hjá Stjörnunni
„Liðið skrifaði sig í sögubækur félagsins þegar það varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar eftir eftirminnilegan sigur í oddaleik gegn Tindastóli. Heillastjarna skein yfir leið liðsins í úrslitakeppninni. Titillinn kom á 65 ára afmælisári Stjörnunnar og markaði tímamót í íþróttasögu Garðabæjar. Stjörnumenn bættu um betur með sigri í Meistarakeppni KKÍ í september og sýndu þar sem áður mikinn karakter, seiglu og liðsheild. Vegferð liðsins sameinaði samfélagið, efldi samtakamátt bæjarbúa og skapaði ógleymanlegar stundir þar sem Ásgarður var stappfullur og bæjar- og félagsandinn í forgrunni,“ segir í umsögninni um lið ársins.
Þjálfarar ársins 2025 – Þjálfarateymi meistaraflokka fimleikadeildar Stjörnunnar
„Teymið samanstóð af stökkþjálfurunum Unu Brá Jónsdóttur, Kristni Má Hjaltasyni og Jimmy Erik Ekstedt, ásamt dansþjálfurunum Andreu Sif Pétursdóttur og Tönju Kristínu Leifsdóttur, sem báru sameiginlega ábyrgð á þjálfun, undirbúningi og framvindu iðkenda. Undir þeirra stjórn náði Stjarnan framúrskarandi árangri, varð bæði bikar- og Íslandsmeistari í hópfimleikum og hafnaði í öðru sæti á Norðurlandamóti. Starfið einkenndist af fagmennsku, skýrri verkaskiptingu og heildrænni nálgun, þar sem gleði, traust og sterk liðsheild voru í forgrunni. Með samstilltu átaki og metnaði hefur teymið skapað fyrirmyndarstarf innan íslenskrar fimleikahreyfingar,“ segir í umsögn um þjálfarateymið.
Einnig voru viðurkenningar veittar fyrir að keppa í fyrsta skipti með A-landsliði, fyrir að keppa í fyrsta skipti með unglingalandsliði, fyrir frammistöðu á erlendum vettvangi og fyrir framlag til félagsmála í Garðabæ.

Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður ÍTG, stýrði athöfninni.
Öllum fyrrverandi íþróttamönnum Garðabæjar var boðið sérstaklega á hátíðina í ár. Hér er stór hluti hópsins ásamt Hrannari Braga formanni ÍTG og Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra Garðabæjar.

Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir og Matthías Helgi Sigurðarson fluttu tvö lög.
