18. sep. 2023

Þjónustusamningur við Ás styrktarfélag

Garðabær og Ás styrktarfélag hafa gert þjónustusamning um rekstur á sértækri búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk við Brekkuás 2 í Garðabæ. Um er að ræða nýjan búsetukjarna sem er 588m2 að stærð með 7 einstaklingsíbúðum og starfsmannarými.

  • Frá vinstri: Björg Fenger formaður bæjarráðs Garðabæjar, Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar, Þórður Höskuldsson formaður stjórnar Áss, Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags.
    Frá vinstri: Björg Fenger formaður bæjarráðs Garðabæjar, Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar, Þórður Höskuldsson formaður stjórnar Áss, Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags.

Fimmtudaginn 14. september sl. skrifuðu þeir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Þórður Höskuldsson, formaður stjórnar Áss styrktarfélags, undir þjónustusamninginn.  Ás styrktarfélag lítur til ríkjandi hugmyndafræði í samfélaginu hvað varðar útfærslur á rekstri, þjónustu og öðrum verkefnum. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu sem stuðlar að sjálfstæðu lífi á eigin forsendum.

Frá vinstri: Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar og Þórður Höskuldsson formaður stjórnar Áss styrktarfélags

Íbúar flytja inn síðar í haust

Búið er að úthluta í allar 7 íbúðirnar í Brekkuási og er áætlað að fyrstu íbúarnir flytji inn í nóvember næstkomandi.  Rúmt ár er síðan fyrsta skóflustungan var tekin að þessum nýja búsetukjarna við Brekkuás og framkvæmdir hafa gengið vel.  Sjá nánar hér í eldri frétt. 

Bygging búsetukjarnans er hluti af stefnu bæjarins um áframhaldandi uppbyggingu búsetukjarna fyrir fatlað fólk samhliða fjölgun annarra búsetuúrræða og fækkun herbergjasambýla.