4. jan. 2019

Þriðjudagsklassík hefst á ný

Tónleikaröðin Þriðjudagsklassík í Garðabæ er nú haldin í sjötta sinn. Að þessu sinni er tónleikaröðin í samstarfi við KÍTÓN, félag kvenna í tónlist 

  • María Magnúsdóttir
    María Magnúsdóttir

Tónleikaröðin Þriðjudagsklassík í Garðabæ er nú haldin í sjötta sinn. Þrennir tónleikar verða haldnir frá janúar til mars 2019, annan þriðjudag í mánuði. Að þessu sinni er Þriðjudagsklassík í samstarfi við KÍTÓN, félag kvenna í tónlist og gaman að geta þess að allir flytjendur eru virkir félagsmenn í KÍTÓN.

Tónleikar þriðjudaginn 8. janúar - María Magnúsdóttir bæjarlistamaður

Það er bæjarlistamaður Garðabæjar 2018, María Magnúsdóttir, djasssöngkona, sem ríður á vaðið á fyrstu tónleikum ársins þriðjudaginn 8. janúar kl. 20 í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. 

Með Maríu leika þau Sara Mjöll Magnúsdóttir, píanóleikari og Sigmar Þór Matthíasson, bassaleikari. Á efnisskrá eru ástsæl íslensk sönglög í léttum djassbúningi auk uppáhalds djass-standara tónlistarmannanna. Það verður létt og notaleg stemning í sal Tónlistarskóla Garðabæjar nk. þriðjudagskvöld.

Sjá nánari upplýsingar um fyrstu tónleikana hér í viðburðadagatalinu á vefnum.

Næstu tónleikar verða 12. febrúar nk. og bera heitið Franskir flaututónar. Það eru þær Emilía Rós Sigfúsdóttir, flautuleikari og Ástríður Alda Sigurðardóttir, píanóleikari sem leika verk eftir Saint-Saens, Gabriel Faure og C. Goddard.

Þriðju og síðustu tónleikarnir 12. mars bera heitið Á norðurslóðum en þar kemur tónlistarhópurinn UMBRA fram og flytur eigin útsetningar á norrænum þjóðlögum.

Tónleikarnir haldnir í sal Tónlistarskóla Garðabæjar

Allir tónleikar í tónleikaröðinni Þriðjudagsklassík fara fram í sal Tónlistarskóla Garðabæjar við Kirkjulund 11 og standa yfir í um klukkustund. Aðgangseyrir er 2000 kr. og er miðasala við innganginn.  Að tónleikunum standa menningar- og safnanefnd Garðabæjar en listrænn stjórnandi er Ingibjörg Guðjónsdóttir.

Þriðjudagsklassík á facebook

Auglýsing - Þriðjudagsklassík - tónleikar á vorönn 2019