6. júl. 2024

Þróunarsjóðsverkefni í leik- og grunnskólum Garðabæjar

Fjölbreytt verkefni hafa fengið styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ á liðnum árum. Nýverið var auglýst eftir umsóknum í síðari hluta úthlutunar á þessu ári úr þróunarsjóði grunnskóla.

  • Afram strakar_kennsluverkefni

Þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ er ætlað að stuðla að framþróun og öflugra innra starfi skóla í Garðabæ.  

Hér á vef Garðabæjar er hægt að skoða þróunarsjóðsverkefni leik- og grunnskóla á aðgengilegan hátt á sérstökum undirsíðum. Lokaskýrslur þróunarverkefna eru birtar þar sem verkefnin eru flokkuð eftir skólastigum: leikskólastig, yngsta stig grunnskóla, miðstig grunnskóla og unglingastig grunnskóla. Á hverju skólastigi er textaleit úr stuttri lýsingu um verkefnin, þar er hægt að setja inn heiti skóla o.fl. og einnig eru þar fellivalsgluggar þar sem hægt er að velja áhersluþætti og námsgreinar sem tengjast verkefnunum.
Með því að hafa þróunarverkefnin aðgengileg með þessum hætti er markmiðið að skólasamfélagið njóti og nýti verkefnin til að gera gott skólastarf í bænum enn betra.

Næsta úthlutun úr þróunarsjóði grunnskóla

Nýverið var auglýst eftir umsóknum til síðari úthlutunar á þessu ári úr þróunarsjóði grunnskóla Garðabæjar. Umsóknir þurfa að berast fyrir 15. september nk. 

Einstaka kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við grunnskóla í Garðabæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu sem og fræðslu- og menningarsvið í samstarfi við skóla, geta sótt um styrk í Þróunarsjóðina.

Hér má nálgast auglýsinguna þar sem fram koma áhersluþættir og fleiri upplýsingar.