Umhverfisviðurkenningar Garðabæjar 2024
Umhverfisviðurkenningar Garðabæjar fyrir árið 2024 voru veittar við hátíðlega athöfn í Sveinatungu á Garðatorgi.
Umhverfisnefnd Garðabæjar afhendir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir og opin svæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Einnig er valin snyrtilegasta gatan í bænum og sem hefur nú fengið viðurkenningarskilti við götuna af því tilefni.
Margar ábendingar um fallega garða og svæði bárust umhverfisnefnd Garðabæjar í ár. Nefndin fór svo um bæinn og skoðaði garðana þann 17. júlí. Að þessu sinni veitti umhverfisnefnd íbúum í Árakri 28, Gerðakoti 3, Hliðsnesi 1, Keldugötu 2 og Unnargrund 11, viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir við íbúðarhús. Vakin er athygli á því að fólk getur sent ábendingar um fallegt umhverfi allt árið.
Viðurkenningu fyrir snyrtilega götu fá íbúar við Stórakur og viðurkenningu fyrir snyrtilega lóð fyrirtækis fær Golfklúbburinn Oddur.
Meðfylgjandi eru myndir frá afhendingu viðurkenninganna ásamt hluta úr umsögum og myndum af þeim lóðum sem hlutu viðurkenningu.
Árakur 28
Með eindæmum snyrtileg og blómrík lóð og ber merki þess að vera svolítið framandi. Á pallinum við anddyri eru gróðurkassar fyrir matjurtir og pottar með lyngrósum, fjölærum plöntum og fleiru. Sannkallað augnayndi.
Stella Stefánsdóttir formaður umhverfisnefndar, Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar ásamt Kuija Choi sem tók við viðurkenningunni fyrir lóðina við Árakur 28.
Gerðakot 3
Gróskumikil lóð með mikið af forvitnilegum plöntum. Tjörn er í garðinum, sumarblóm í mörgum kerjum og fjölærar plöntur sem fylgja þegar gengið er á timburpöllum inn í einstaklega blómfagran garð.
Gunnar Þorbjarnarson og Maren Rún Gunnarsdóttir ásamt dóttur sinni tóku við viðurkenningunni.
Hliðsnes 1
Stór lóð sem minnir á „óðalssetur“ þar sem mikil snyrtimennska og natni er viðhöfð. Grasflatir í góðu viðhaldi, stéttir hreinar, trjábeð til fyrirmyndar með fjölærum jurtum, trjám og blómstrandi runnum.
Stella og Almar ásamt Ólafi Tryggvasyni og Höllu Stefánsdóttur.
Keldugata 2 (fjölbýli)
Stéttir og grasflatir tóna vel við glæsilegt hús. Metnaður íbúa er augljós fyrir því að hafa lóð og umhverfi sem snyrtilegast í nýju hverfi í uppbyggingu.
Baldur Björnsson, íbúi við Keldugötu 2 í Urriðaholti.
Unnargrund 11
Garðurinn er mjög fallegur og stílhreinn. Öll trjábeð algerlega hrein og grasflatir til fyrirmyndar. Aðkoma að húsi er blómum skreytt. Eigendur hafa augljóslega mikinn metnað fyrir því að hafa garðinn sem fallegastan.
Signý Guðmundsdóttir og Jón Magnús Björgvinsson ásamt Stellu og Almari.
Snyrtilegasta gatan 2024: Stórakur
Garðarnir og götumyndin við Stórakur er sérstaklega snyrtileg og stílhrein. Íbúarnir eru auðsjáanlega samstilltir við að halda lóðum sínum snyrtilegum og í samræmi við nærumhverfið.
Soffí Huld Friðbjarnardóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd Íbúa við Stórakur.
Snyrtileg lóð fyrirtækis: Golfklúbburinn Oddur
Golfvöllurinn í Urriðavatnsdölum er í fögru umhverfi þar sem aðstaðan og umgengni er til fyrirmyndar. Golfklúbburinn Oddur hefur unnið vel fyrir því að hljóta þessi verðlaun í ár.
Berglind Rut Hilmarsdóttir, sem situr í aðalstjórn Odds, og Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds tóku við viðurkenningunni.
Vakin er athygli á því að fólk getur sent ábendingar um fallegt umhverfi allt árið. Hægt er að skila ábendingum í þjónustuver Garðabæjar, Garðatorgi 7, eða senda tölvupost á netfangið gardabaer@gardabaer.is.