Uppáhaldsfrasinn er „þetta reddast“
Uppáhaldsfrasi Mariu Luz Rack De Alva, leikskólakennara við leikskóladeild Urriðaholtsskóla, er hinn klassíski „Þetta reddast“.
-
Meginmarkmiðið með íslenskunámskeiðunum sem Garðabær býður erlendu starfsfólki upp á er að efla notkun íslenska tungumálsins inni á stofnunum bæjarins og að styrkja stöðu starfsfólks sem eru innflytjendur í bæði leik og starfi.
Hópur starfsmanna hjá Garðabæ sækir íslenskunámskeið sem bærinn býður starfsfólki, sem hefur annað móðurmál en íslensku, upp á. Námskeiðin eru nú kennd í annað sinn í Garðabæ, en hópur starfsfólks sótti þau á vormánuðum.
Maria er ein þeirra sem skráði sig í íslenskunámskeið í gegnum vinnustað sinn í Garðabæ. Hún kemur frá Spáni og Þýskalandi en móðir hennar er spænsk og pabbi þýskur. Hún talar fjögur tungumál en til viðbótar við spænsku og þýsku talar hún ensku og nú auðvitað íslensku.
„Það gengur mjög vel og það virkar vel fyrir mig að hafa kennara sem hefur annað móðurmál en íslensku. Þannig veit kennarinn alveg hvað það er sem okkur vantar,“ segir Maria þegar hún er spurð að því hvernig gangi í náminu.
Íslenskukennslan er í höndum Liberis Fræðslumiðstöðvar og allir kennarar Liberis eru konur af erlendum uppruna. Maria segir það virka vel fyrir sig að hafa kennara sem þekkir þær áskoranir sem fylgja því að læra nýtt tungumál á fullorðinsaldri.
Leikskólabörnin hjálpa
Þegar Maria er spurð út í það áhugaverðasta sem hún hefur lært á íslenskunámskeiðinu hlær hún og nefnir íslenska beygingarkerfið en það getur vissulega verið vandasamt að ná tökum á því.
Maria nýtur þess að læra íslensku og hugsar að það hafi án efa hjálpað að kunna þýsku og spænsku til viðbótar við ensku þegar hún hóf íslenskunámið. Henni þótti afar spennandi að fá tækifæri til að skrá sig á íslenskunámskeið í gegnum vinnuna.
En á hún sér uppáhaldsorð eða frasa á íslensku? „Já, til dæmis „skiptir ekki máli“ og „þetta reddast“. Ég nota það mikið.“
Maria segir að í starfi sínu sem leikskólakennari í Urriðaholtsskóla séu börnin stöðugt kenna henni ný íslensk orð. „Ég spyr börnin oft, þá bendi ég til dæmis á myndir og hluti og spyr – og þau hjálpa mér.“