Urriðaból hlaut Grænu skófluna
Leikskólinn Urriðaból hlaut Grænu skófluna, viðurkenningu fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.
Verðlaunin Græna skóflan voru veitt leikskólanum Urriðabóli við Holtsveg 20 í Garðabæ. Græna skóflan er viðurkenning sem Grænni byggð veitir fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.
Að mörgu er að huga þegar vistvæn mannvirkjagerð er annars vegar. Að þessu sinni var áhersla lögð á lækkun kolefnisspors byggingar hjá dómnefnd, en einnig var tekið tillit til samfélagslegra áhrifa mannvirkisins. „Urriðaból ber með sér vandaða hönnun og samræmingu allra sem að verkinu koma. Hún gefur sterka tilfinningu fyrir mannlegum skala og næmni gagnvart notandanum. Vellíðan notandans er hér í fyrirrúmi auk þess sem efnisval og meðhöndlun þess er unnin á forsendum umhverfisins og arkitektónískrar fagurfræði,“ segir í tilkynningu frá Grænni byggð.
Leikskólinn er byggður úr krosslímdum timbureiningum (CLT) sem hýsir sex deildir.
Urriðaból er jafnframt fyrsta leikskólaverkefnið sem hlýtur Svansvottun samkvæmt nýbyggingarviðmiðum Svansins. Viðmið Svansins setja strangar kröfur er varða orku og loftslagsmál, hringrásarhagkerfið og er ekki síst lögð áhersla á gæði byggingarinnar, góða innivist og loftgæði. Þegar kemur að byggingum sem hannaðar eru fyrir viðkvæma hópa eins og yngsta hóp samfélagsins er gríðarlega mikilvægt að huga að efnanotkun innandyra. Með Svansvottun hafa verið notaðar byggingarvörur sem eru með fá skaðleg efni.
Að hönnun byggingarinnar og framkvæmd stóðu eftirfarandi aðiliar ásamt Garðabæ:
exa nordic
HJARK Architecture
Lota
Myrra hljóðstofa
Sastudio
Strendingur
Teiknistofa Norðurlands
Teknik
Þarfaþing