4. okt. 2018

Vel mætt á fyrsta viðburð í forvarnaviku

Opinn fræðslufyrirlestur um mikilvægi tengsla og samveru fyrir börn var haldinn í sal Sjálandsskóla síðastliðið miðvikudagskvöld. Foreldrar og starfsfólk í Garðabæ hlýddu á erindi og var fræðslufyrirlesturinn fyrsti viðburðurinn í forvarnaviku Garðabæjar sem stendur yfir frá 3.-10 október.

Opinn fræðslufyrirlestur um mikilvægi tengsla og samveru fyrir börn var haldinn í sal Sjálandsskóla síðastliðið miðvikudagskvöld. Foreldrar og starfsfólk í Garðabæ hlýddu á erindi og var fræðslufyrirlesturinn fyrsti viðburðurinn í forvarnaviku Garðabæjar sem stendur yfir frá 3.-10 október.  Ýmsir aðrir áhugaverðir viðburðir verða í forvarnaviku og má kynna sér þá hér en allir tengjast þeir þema vikunnar sem er heilsueflandi samvera.  Björg Fenger, formaður íþrótta og tómstundaráðs Garðabæjar kynnti fyrirlesara og sagði fundarfólki frá forvarnavikunni.

Í erindi Önnu Maríu Jónsdóttur geðlæknis á fundinum kom fram að frá fæðingu eru börn að mynda tengsl við foreldra sína og læra félagslega færni. Hún ítrekaði mikilvægi þess að foreldrar og forsjáraðilar, þeir sem barnið treystir á, séu til taks þegar börn þurfa á þeim að halda og benti á að það eigi einnig við um unglingsárin. Samvera er þáttur í því að byggja góð tengsl og samræður eru mikilvægar.

Róbert Marshall ræddi líka um þessar samverustundir og benti á að þegar fjölskyldur stunda útivist saman sé góður tími til umræðna, fjölskyldur kynnist vel og eigi mikilvægan tíma saman. Síminn sé líka ekki uppi við sem hjálpi til með tengslin og athygli fjölskyldumeðlima er á hvert öðru. 

Grunnstoð, samtök foreldrafélaga í Garðabæ, bauð upp á kaffi og veitingar í hléi. Fleiri myndir frá fundinum má finna hér að neðan.

BF