29. apr. 2025

Verk Ragnheiðar Jónsdóttur afhjúpað við hátíðlega athöfn

Listaverkið XZY eftir myndlistarkonuna Ragnheiði Jónsdóttur prýðir stóran vegg í aðalsal Urriðaholtsskóla. Verkið hefur nú verið afhjúpað með formlegum hætti.

  • XZY er kol á pappír og þekur stóran vegg í Urriðaholtsskóla. Upphengi á verkinu var útfært í samvinnu við hönnunarstjóra Urriðaholtsskóla, Baldur Ó. Svavarsson arkitekt.

Verkið XZY eftir myndlistarkonuna Ragnheiði Jónsdóttur var nýverið afhjúpað með pompi og prakt í Urriðaholtsskóla. Verkið er kol á pappír og þekur stóran vegg í aðalsal skólans.

Ragnheiður hefur verið búsett í Garðabæ um áratuga skeið. Hún var bæjarlistamaður Garðabæjar 1994, heiðurslistamaður bæjarins árið 2013 og árið 2023 hlaut hún heiðursviðurkenningu Íslensku myndlistaverðlaunanna.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, bauð Ragnheiði, fjölskyldu hennar og vinum ásamt fulltrúum Urriðaholtsskóla og bæjarins til að vera viðstödd athöfnina þegar verkið var afhjúpað með formlegum hætti.

Ragnheiður hélt tölu við athöfnina og sagði meðal annars frá því að hún hefði þurft að halda aftur af tárunum þegar hún sá fyrst rýmið sem verkið myndi prýða og útsýnið frá aðalsal skólans. Hún sá að það myndi njóta sín vel á þessum stað.

Haukur Gröndal saxafónleikari, Snorri Skúlason bassaleikari og Erik Qvick á slagverk fluttu ljúfa tóna við afhjúpunina, meðal annars lagið Sous le ciel de Paris sem vísun í dvöl Ragnheiðar í París en þangað hélt hún árið 1970 og lærði grafík eftir að hafa lagt stund á listnám bæði í Reykjavík og í Kaupmannahöfn.

IMG_2163

Þetta glæsilega verk mun um ókomna tíð hafa áhrif á nemendur Urriðaholtsskóla.

IMG_2227

IMG_2195Ragnheidur-Almar-og-Sigridur-Hulda

IMG_2212

IMG_2233IMG_2293IMG_2327

IMG_2268IMG_2300IMG_2253