6. jan. 2020

Viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs

Á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram 5. janúar sl. voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs. 

  • Þorsteinn Þorbergsson í Stjörnunni, Guðrún Kolbrún Thomas í Félagi eldriborgara í Garðabæ og Steinunn Guðbjörnsdóttir í Hestamannafélaginu Sóta fengu viðurkenningu.
    Þorsteinn Þorbergsson í Stjörnunni, Guðrún Kolbrún Thomas í Félagi eldriborgara í Garðabæ og Steinunn Guðbjörnsdóttir í Hestamannafélaginu Sóta fengu viðurkenningu.

Á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram 5. janúar sl. voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs. Í ár voru það þau Þorsteinn Þorbergsson í Stjörnunni, Steinunn Guðbjörnsdóttir í Hestamannafélaginu Sóta og Guðrún Kolbrún Thomas í Félagi eldriborgara í Garðabæ sem fengu viðurkenningu.

Sjá frétt hér um íþróttahátíðina og hverjir urðu íþróttamenn Garðabæjar 2019.

Þorsteinn Þorbergsson  - Stjörnunni

Þorsteinn hóf feril sinn í barna og unglingaráði körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar árið 2007. Hann tók fyrst sæti sem ritari í aðalstjórn Stjörnunnar árið 2009. Samtals hefur Þorsteinn setið í aðalstjórn í 9 ár þar af 8 ár sem Gjaldkeri. Hann sat einnig í Afreksjóði Stjörnunnar frá upphafi til 2018. Þorsteinn átti sæti í Mannvirkjanefnd Stjörnunnar frá 2011 – 2018. Hann sat í einnig stjórn UMSK fyrir hönd Stjörnunnar frá 2014 – 2018. Þorsteinn gaf félaginu hönnun á lukkudýri félagsins árið 2010, en hann var einn af þeim sem byrjuðu á að ljúka máli sínu í ræðu og ritum með kveðjunni „Skíni Stjarnan“, sem hefur öðlast sess hjá félagsmönnum. Þorsteinn Þorbergsson hefur verið ötull í sjálfboðaliðastarfi félagsins og hefur tekið þátt í fjölmorgum óeigingjörnum störfum. Þorsteinn er mjög iðinn við að taka þátt í kappleikjum félagsins og hefur verið virkur þátttakandi í Silfurskeiðinni stuðningsfélagi Stjörnunnar. Það er varla sá leikur eða keppni hjá félaginu þar sem þú kemur ekki auga á Þorstein í stúkunni og oftar en ekki á trommunum að leiða stuðningsmenn félagsins áfram í hvatningu til liðanna okkar.

Steinunn Guðbjörnsdóttir - Hestamannafélaginu Sóta

Steinunn hefur starfað fyrir hestamannafélagið Sóta í ára raðir. Hún hefur starfað meira og minna í öllum nefndum félagsins og var formaður þess um ára bil. Steinunn er drífandi og samviskusöm og hrífur fólk með sér í verkin. Hún gaf út fréttablað innan félags um skeið með fræðsluefni, viðtölum við félagana og allmennar fréttir um hestamennsku innan og utan félags. Hún lagði ómælda vinnu í þetta til að gleðja okkar félagsmenn. Á síðasta starfsári sá hún um mótanefndina og hélt meðal annars stórt opið íþróttamót með á annað hundrað skráningum. Það er dýrmætt hverju íþrótta félagi að eiga svona perlu innan sinna vébanda.

Guðrún Kolbrún Thomas - Félag eldriborgara í Garðabæ

Guðrún Kolbrún Thomas er fædd 21. mars 1944. Síðan hún flutti í Garðabæinn hefur hún verið máttarstólpi í félagsmálum eldri borgara. Hún hefur staðið fyrir nokkrum Bridge námskeiðum og haft umsjón með bridge spili í félagsmiðstöðinni í Jónshúsi. Guðrún Kolbrún er virk í gönguklúbbi Jónshúss og hefur kveikt áhuga margra á göngu - en gengið er á hverjum degi að undanskildum sunnudögum. Þá hefur hún verið línudansari í mörg ár og hefur með áhuga og elju margfaldað þá tölu sem stunda línudans á vegum Félags eldri borgara í Garðabæ.