8. maí 2025 Tónlistarskóli

Vígja nýja flygilinn með sérstökum tónleikum

Laugardaginn 10. maí klukkan 15:00 fara fram vígslutónleikar í sal Tónlistarskóla Garðabæjar við Kirkjulund.

  • Vígja nýja flygilinn með tónleikum
    Á laugardaginn fara fram vígslutónleikar í Tónlistarskóla Garðabæjar. Þar munu kennarar og nemendur leika á nýjan flygil sem var gjöf Garðabæjar til skólans í tilefni 60 ára afmælis.

Laugardaginn 10. maí klukkan 15:00 fara fram vígslutónleikar í sal Tónlistarskóla Garðabæjar við Kirkjulund. Á tónleikunum munu kennarar og nemendur skólans leika á nýjan flygil sem var gjöf Garðabæjar til skólans í tilefni 60 ára afmælis

Laufey Ólafsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Garðbæjar, segir nemendur og kennara skólans vera himinlifandi með nýja hljóðfærið sem er frá Steinway & Sons.

„Nýi flygillinn leysir af hólmi 26 ára gamlan Steinway-flygil sem hefur sinnt sínu hlutverki vel í gegnum árin en var orðinn slitinn eftir mikla og stöðuga notkun.“ Hún segir nýja flygilinn hafa mikið að segja fyrir nemendur skólans. „Það er hvetjandi fyrir nemendur að fá tækifæri til að spila á framúrskarandi hljóðfæri,“ segir Laufey.

Flygill-23

Mikið ferli að velja nýja flygil

Tveir píanókennarar skólans, þau Guðrún Dalía Salómonsdóttir og Kristján Karl Bragason, völdu flygilinn. „Hann er einstaklega hljómfagur og gott að spila á hann, þeir nemendur og kennarar sem hafa prufað hljóðfærið eru sammála um það,“ segir Laufey.

Að kaupa nýjan flygil fyrir tónleikasal er mikið ferli að hennar sögn. „Tónastöðin, sem er umboðsaðili fyrir Steinway á Íslandi, sá um allt skipulagið. Steinway-verksmiðjan er í Hamborg í Þýskalandi og þangað fóru Guðrún og Kristján til að velja hljóðfærið. Verksmiðjan stillir upp flyglum sem hafa mismunandi eiginleika og svo er valið á milli þeirra,“ útskýrir Laufey.

Image00001Image00007Image00005_1746696546112

Hún segir kennara og skólastjórnendur vera sammála um að þau Guðrún og Kristján hafi valið vel og að hljóðfærið eigi eftir að vera lyftistöng fyrir skólann og Garðabæ.

Á vígslutónleikunum koma fram:

Eva Þyri Hilmarsdóttir
Guðný Charlotta Harðardóttir
Guðrún Dalía Salómonsdóttir
Kristinn Örn Kristinsson
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sunna Gunnlaugsdóttir
Tinna Þorsteinsdóttir
Fulltrúar nemenda

Aðgangur á tónleikana er ókeypis og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.

Flygill-7Flygill-16Flygill-22