4. okt. 2022 Fjölnota íþróttahús Íþróttir og tómstundastarf

Æfingar yngri landsliða í Miðgarði næstu þrjú árin

Garðabær og Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafa samið um æfingaaðstöðu fyrir yngri landslið Íslands í fjölnota íþróttahúsinu Miðgarði í Garðabæ. Samningurinn var undirritaður í dag, þriðjudaginn 4. október, og er til þriggja ára.

  • Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar við undirritun samningsins.
    Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar við undirritun samningsins.

Garðabær og Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafa samið um æfingaaðstöðu fyrir yngri landslið Íslands í fjölnota íþróttahúsinu Miðgarði í Garðabæ. Samningurinn var undirritaður í dag, þriðjudaginn 4. október, og er til þriggja ára.

KSÍ fær til afnota aðstöðu á skilgreindum rýmum í Miðgarði á tilteknum tímum dagsins, en um er að ræða bæði knattspyrnusalinn og stoðrými, svo sem búningsaðstöðu, sjúkraherbergi, fundaraðstöðu og mataraðstöðu, dómara og þjálfara herbergi og þrekæfingasvæði með gervigrasi.

Fyrstu KSÍ æfingarnar í húsinu voru á dagskrá í september þegar að hæfileikamótun drengja fór fram. Framundan í október eru æfingar yngri landsliða.

Lifandi starfsemi í Miðgarði

 Miðgarður er fjölnota íþróttahús sem var tekið í notkun snemma á þessu ári og hafa frjálsu félögin í Garðabæ getað nýtt húsið frá opnun þess. Starfsemin í Miðgarði er lifandi á degi hverjum í mörgum rýmum fyrir utan knattspyrnuvöllinn, svo sem við klifurvegg, á göngu- og skokkbraut, á þrekæfingasvæði og í lyftingarsal. Í húsinu eru einnig óráðstöfuð rými sem vonast er til að hægt sé að nota þannig að stutt sé sem best við þá fjölbreyttu flóru íþrótta- og heilsutengdrar starfsemi sem fyrirfinnst í Garðabæ.

Almar Guðmundsson bæjarstjóri segir ánægjulegt að starfsemin í Miðgarði sé sífellt að eflast og taka á sig skýrari mynd. „Húsið nýtist fyrst og fremst ungum sem öldnum íbúum Garðabæjar en það er kærkomin viðbót að hefja samstarf við KSÍ um starfsemi í húsinu þannig að það nýtist ennþá betur. Það er jákvætt og hvetjandi fyrir yngri iðkendur í íþróttafélögum Garðabæjar að hið faglega starf og æfingar yngri landsliða fari fram í Miðgarði. Framundan er síðan spennandi verkefni við að að efla Miðgarð enn frekar með það að markmiði að Garðabær verði hér eftir sem hingað til heilbrigt og heilsueflandi samfélag.“