16. okt. 2020 Fjölnota íþróttahús Framkvæmdir

Byrjað að reisa stálið í fjölnota íþróttahúsinu

Í vikunni var byrjað að reisa stálið í fjölnota íþróttahúsinu sem er í byggingu í Vetrarmýri. Vinna við húsið hefur gengið vel frá því að framkvæmdir hófust að nýju í sumar. 

  • Stálið reist í fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri
    Stálið reist í fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri

Vinna við fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri í Garðabæ hefur gengið vel frá því að framkvæmdir hófust að nýju. Byrjað var að dæla sementsgraut til jarðvegsstyrkingar í mýrina um miðjan ágúst og er þeirri vinnu nú lokið. Magn af sementi sem fór í mýrina var samkvæmt áætlun. Í haust hefur verið unnið að því að koma staurum undir sökkla og samhliða hefur verið unnið að því að koma stögum niður í klöppina sem einnig tengjast sökklunum og er áætlað að þeirri vinnu ljúki í lok október. 

Í vikunni var byrjað að reisa stálið í stálgrind fjölnota íþróttahússins og áætlað er að þeirri vinnu ljúki um áramótin. Því næst verður byrjað að klæða veggi íþróttasalarins og steypa upp veggi stoðbygginga.  Áætlað er að húsið verði tilbúið í lok árs 2021. 

Fjölnota íþróttahúsið verður með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð innanhúss auk upphitunaraðstöðu ásamt tilheyrandi stoðrýmum. Stærð íþróttasalarins verður um 80x120 m, með anddyri og öðrum stoðrýmum er flatarmál hússins um 18.200m².


Frétt frá 13/8'20 um að framkvæmdir við fjölnota íþróttahúsið væru hafnar á ný.

Frétt  frá 23/6'20 um samkomulag um úrlausn ágreinings vegna fjölnota íþróttahúss. 

Stálið reist í fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri

Stálið reist í fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri