COVID-19: Breyttar reglur um sóttkví
Heilbrigðisráðherra hefur breytt reglum um sóttkví í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Breytingarnar byggja á faglegu mati og góðri bólusetningarstöðu þjóðarinnar
-
Séð yfir Garðabæ og Arnarnesvog
Heilbrigðisráðherra hefur breytt reglum um sóttkví í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Breytingarnar byggja á faglegu mati og góðri bólusetningarstöðu þjóðarinnar. Reglugerð um breytinguna hefur þegar tekið gildi.
Með breytingunum er dregið úr takmörkunum á einstaklinga sem þurfa að sæta sóttkví ef þeir eru þríbólusettir gegn Covid. Um 160.000 einstaklingar eru nú þríbólusettir og því ljóst að breyttar reglur um sóttkví munu gjörbreyta stöðunni. Sama máli gegnir um einstaklinga sem hafa jafnað sig af staðfestu smit og eru tvíbólusettir.
Sóttvarnalæknir bendir á að samkvæmt nýlegum rannsóknum frá Bretlandi og Danmörku dragi örvunarskammtur (alls þrír bóluefnaskammtar) verulega úr líkum á smiti, sérstaklega af völdum delta-afbrigðis kórónaveirunnar. Örvunarskammtur minnki einnig verulega líkur á smiti af völdum ómíkron, þótt bólusetning gegn Covid-19 veiti almennt minni vörn gegn ómíkron en delta.
Breyttar reglur um sóttkví gilda um:
a) einstaklinga sem eru þríbólusettir og fengu síðustu sprautuna meira en 14 dögum áður en viðkomandi er útsettur fyrir smiti
b) einstaklinga sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru jafnframt tvíbólusettir, að því gefnu að þeir hafi fengið síðari sprautuna meira en 14 dögum áður en þeir voru útsettir.
Breyttar reglur fela í sér að hlutaðeigandi er:
- heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur,
- óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt er hér að ofan,
- skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð,
- óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar,
- skylt að forðast umgengni við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.
- Takmörkunum samkvæmt ofangreindum reglum lýkur ekki fyrr en með niðurstöðu PCR-prófs sem tekið er á fimmta degi sóttkvíar. Ef einstaklingur finnur fyrir einkennum smits einhvern tíma á þessu fimm daga tímabili á hann að undirgangast PCR-próf án tafar. Tími í sóttkví er aldrei skemmri en fimm dagar.
Reglugerðin var birt í Stjórnartíðindum síðdegis 7. janúar 2022 og hefur þegar öðlast gildi og gildir um alla einstaklinga sem sæta sóttkví við gildistöku hennar.