10. mar. 2021 Almannavarnir Félagslíf

Fermingar til fyrirmyndar

Gætum að einstaklingsbundnum sóttvörnum á fermingardaginn. Leiðbeiningar frá almannavörnum um fermingar 2021.

  • Fermingar á tímum Covid
    Fermingar til fyrirmyndar

Leiðbeiningar frá almannavörnum um fermingar 2021

Sjá einnig upplýsingar á vefnum covid.is. 

Með vorinu koma fermingarnar og í ár geta trú- og lífsskoðunarfélög haft athafnir fyrir allt að 200 manns. Um veislur gilda þó aðrar reglur og núverandi takmarkanir á samkomum leyfa 50 einstaklingum að koma saman. Þær gilda til og með 17. mars nk.. Börn fædd eftir 2005 eru undanskilin og einnig ættingjar og vinir sem vitað er að hafi fengið COVID-19. Fermingarveislur verða því mögulega að vera skipulagðar með öðrum hætti en tíðkast hefur.

Hér eru nokkur atriði sem innihalda ráðleggingar um það hvernig gott sé að halda veislu með sóttvarnir í fyrirrúmi.

  • Skiptum veislugestum í hópa sem eru innan fjöldatakmarkanna og höldum aðskildar veislur fyrir hópana
  • Látum gesti vita um boðið með góðum fyrirvara svo þeir hafi tækifæri til að fara varlega dagana fyrir boðið
  • Verndum viðkvæma einstaklinga
  • Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá er mikilvægt að vera heima, fara í próf og vera í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir
  • Fylgjumst með þróun faraldursins og takmörkunum og bregðumst við ef þörf krefur
  • Sýnum varúð í ferðalögum milli landshluta
  • Tryggjum nándarmörk og einstaklingsbundnar smitvarnir

Veislan sjálf

  • Höfum handspritt víða aðgengilegt í veislunni
  • Gætum vel að sóttvörnum og höfum handspritt á hlaðborðinu
  • Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma
  • Hugum að loftræstingu og loftum út á meðan á boðinu stendur
  • Bjóðum upp á grímur ef gestir kjósa, þvoum hendur og sprittum okkur reglulega
  • Takmörkum sameiginlega snertifleti og þrífum þá oft og reglulega
  • Notum grímu og þvoum okkur reglulega um hendur á meðan við útbúum matinn, berum hann fram og göngum frá
  • Takmörkum fjölda fólks þar sem maturinn er útbúinn og gengið er frá eftir matinn
  • Takmörkum notkun á sameiginlegum áhöldum, svo sem tertuhnífum, kaffikönnum, mjólkurkönnum og svo framvegis
  • Þvoum allt tau eftir hvert boð, svo sem dúka og tauservíettur

Gisting

Algengt er að vinir og/eða fjölskyldumeðlimir ferðist á milli landshluta til að gleðjast með fermingarbörnunum. Mikilvægt er að vera búin að gera ráðstafanir ef gestir og/eða heimilisfólk veikjast af COVID-19 á meðan heimsókn stendur. Við þurfum að huga að sóttkví, einangrun, heilbrigðisþjónustu og ferðalaginu heim ef um gesti er að ræða. Hvort sem við gistum að heiman eða fáum sjálf gesti þurfum við að huga vel að sóttvörnum, sérstaklega ef einhver er í áhættuhópi.

‍Í ferðalaginu

  • Notum grímu á meðan á ferðalaginu stendur
  • Forðumst að snerta grímuna, augu, nef og munn
  • Höldum fjarlægð frá öðru fólki
  • Þvoum okkur oft um hendur og/eða notum handspritt

Líkt og á öðrum tímum þurfum við að huga að persónulegum sóttvörnum

  • Þvoum hendur reglulega
  • Virðum nálægðarmörkin
  • Loftum reglulega út
  • Notum andlitsgrímur þegar við á
  • Þrífum snertifleti reglulega

Áríðandi er að við verndum viðkvæma einstaklinga og gleðjumst gætilega.