Fjölbreytt og flott dagskrá á Safnanótt
Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í Garðabæ á Safnanótt.
-
Föstudaginn 7. febrúar verður boðið upp á skemmtilega dagskrá á Bókasafni Garðabæjar og á Hönnunarsafni Íslands í tilefni af Safnanótt.
Föstudaginn 7. febrúar verður boðið upp á skemmtilega dagskrá á Bókasafni Garðabæjar og á Hönnunarsafni Íslands í tilefni af Safnanótt.
„Það verður fjölbreytt dagskrá fyrir mismunandi aldurshópa í boði í Garðabæ á Safnanótt. Við byrjum snemma á bókasafninu með dagskrá sem ætluð er fjölskyldunni, til dæmis verður boðið upp á bingó! Svo ljúkum við dagskránni á bókasafninu með jazztónleikum með hinni frábæru Margréti Eir og félögum. Þá tekur stuðdagskrá við á Hönnunarsafninu, sýningin Barbie fer á Hönnunarsafnið verður opnuð og svo verður dansað með Siggu Soffíu og DJ í lok kvölds,“ segir Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar og er viss um að flest geti fundið eitthvað við sitt hæfi á Safnanótt.
Bókasafn Garðabæjar
Klukkan 17.00 stígur skólakór Sjálandsskóla á stokk á bókasafninu. Kórinn syngur nokkur lög undir stjórn Ólafs Schram.
Klukkan 17.15 hefst fjölskyldubingó með skemmtilegum vinningum. Þátttaka er ókeypis.
Tarotspámiðillinn Katrín Sjöfn Sveinbjörnsdóttir mætir svo á svæðið klukkan 18.00 og býður upp á örspá fyrir gesti og gangandi. Skráning fer fram í afgreiðslu safnsins.
Jazztríó Margrétar Eirar tekur svo nokkur lög á milli klukkan 19.00 og 20.00. Gítarleikarinn Andrés Þór og bassaleikarinn Þorgrímur Jónsson leika þá með Margréti Eir. Boðið upp á jazz, notalegheit og léttar veitingar.
Hönnunarsafn Íslands
Dagskráin í Hönnunarsafni Íslands hefst klukkan 20.00 með opnun sýningarinnar Barbie fer í Hönnunarsafnið. Sjö fatahönnuðir hafa skapað sérhönnuð föt á Barbie-dúkkur sem eru til sýnis á sýningunni Hönnunarsafnið sem heimili.
Ljótikór syngur þá lög eftir Spilverk þjóðanna.
Sigga Soffía heldur svo uppi stuðinu frá klukkan 21.00 og leiðir dans í Smiðjunni.
Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð sem haldin er dagana 6.–9. febrúar og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.