21. des. 2018 Fjölnota íþróttahús Framkvæmdir

Fjölnota íþróttahús rís í Garðabæ

Verksamningur milli Garðabæjar og Íslenskra aðalverktaka um hönnun og byggingu á nýju fjölnota íþróttahúsi í Garðabæ var undirritaður föstudaginn 21. desember.

  • Undirritun verksamnings um fjölnota íþróttahús í Garðabæ
    Undirritun verksamnings um fjölnota íþróttahús í Garðabæ

Verksamningur milli Garðabæjar og Íslenskra aðalverktaka um hönnun og byggingu á nýju fjölnota íþróttahúsi í Garðabæ var undirritaður föstudaginn 21. desember. Undirritunin fór fram utandyra í Vetrarmýri á þeim stað þar sem húsið mun rísa. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar undirritaði samninginn fyrir hönd Garðabæjar og Sigurður R. Ragnarsson forstjóri fyrir hönd Íslenskra aðalverktaka.

Í lok síðasta árs var auglýst eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu alútboði vegna hönnunar og byggingar á fjölnota íþróttahúsi í landi Vífilsstaða í Garðabæ. Tilboð Íslenskra aðalverktaka skoraði hæst með tilliti til gæða og verðs.

Fjölnota íþróttahúsið verður með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð innanhúss auk upphitunaraðstöðu ásamt tilheyrandi stoðrýmum. Stærð íþróttasalarins verður um 80x120 m með anddyri og öðrum stoðrýmum er flatarmál hússins um 17.000m². Hönnunarvinna verktaka hefst í janúar 2019 og gert er ráð fyrir að verklok verði í apríl 2021. Samningsfjárhæð vegna byggingar hússins er rúmir fjórir milljarðar.

Deiliskipulag svæðisins í Hnoðraholti og Vetrarmýri þar sem húsið mun rísa er í vinnslu og gert ráð fyrir að staðfesting á deiliskipulaginu liggi fyrir í janúar 2019. Markmið deiliskipulags lóðarinnar eru að skapa umgjörð um raunhæfa og framsýna lausn á íþróttasvæði í góðum tengslum við byggð og samgöngur. Að hafa umhverfismál og sjálfbærni að leiðarljósi. Að skapa öruggt og líflegt almenningsumhverfi, m.a. með ,,opnum og lifandi“ jarðhæðum þar sem því verður við komið og að móta skjólsæl rými. Einnig er gert ráð fyrir að byggja upp öruggt umferðarkerfi þar sem sérstök áhersla er lögð á gott flæði gangandi og hjólandi umferðar og tengingar við nærliggjandi svæði.

Uppbygging á fjölnota íþróttahúsi í Garðabæ hefur verið í undirbúningi lengi og aðstaða til íþróttaiðkunar í bæjarfélaginu verður enn öflugri með tilkomu hússins og í anda viljayfirlýsingar frá því í vor um að Garðabær verði heilsueflandi samfélag.

Á meðfylgjandi mynd með frétt eru frá vinstri:
Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður bæjarráðs Garðabæjar, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Sigurður R. Ragnarsson forstjóri ÍAV og Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar.

Undirritun verksamnings um fjölnota íþróttahús í GarðabæUndirritun verksamnings um fjölnota íþróttahús í GarðabæFjolnotahus-i-Gardabae-ASK-arkitektar-002-_vefstaerd