29. jan. 2021 Framkvæmdir Hafnarfjarðarvegur

Framkvæmdir við Hafnarfjarðarveg

Framkvæmdir við endurbætur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar, Vífilsstaðavegar og Lyngáss eru í gangi og munu standa yfir fram á sumar. Endurbæturnar koma til með að auka öryggi vegfarenda og umferðarflæði Hafnarfjarðarvegar ásamt því að bæta tengingu inná Hafnarfjarðarveg og á milli hverfa í Garðabæ.

  • Loftmynd af Vífilsstaðavegi
    Loftmynd af Vífilsstaðavegi

Framkvæmdir við endurbætur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar, Vífilsstaðavegar og Lyngáss eru í gangi og munu standa yfir fram á sumar. Endurbæturnar koma til með að auka öryggi vegfarenda og umferðarflæði Hafnarfjarðarvegar ásamt því að bæta tengingu inná Hafnarfjarðarveg og á milli hverfa í Garðabæ.

Fyrsti áfanginn í verkinu var gerð hringtorgs við Flataskóla, á Vífilsstaðavegi og Litlatúni, og lauk þeirri framkvæmd síðastliðið sumar. Ný umferðarljós á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilstaðavegar voru tekin í notkun um miðjan desember, þar sem beygjuljós fengu eigin fasa, þannig að allir umferðarstraumar eru varðir. Gatnamótin verða komin í fulla virkni í vor þegar allar nýjar akreinar verða teknar í notkun. Stefnt er að því að ná tvöfaldri beygjurein af Hafnarfjarðarvegi úr norðri inn á Vífilsstaðaveg sem fyrst ef veður leyfir, en það krefst nokkurra daga hlýinda þar sem malbika þarf breikkanir akreina. Yfirlagning malbiks á gatnamótunum verður í vor.

Endurbætur á stígakerfum á milli Flataskóla og Garðaskóla er lokið að mestu og þegar nær dregur vori verða stígar á milli Ásgarðs og Lækjafitjar teknir í notkun.

Undirgöng fyrir gangandi og hjólandi

Ný undirgöng fyrir gangandi og hjólandi umferð verða sett undir Hafnarfjarðarveg við Hraunholtslæk og eru þau í undirbúningi. Unnið er að því að steypa einingar sem settar verða niður í maí/júní og lagðir verða stígar að þeim. Umferð verður veitt um hjáleið á meðan á niðursetningu og frágangi undirganganna stendur.

Endurbætur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Lyngáss / Lækjarfitjar eru á áætlun síðsumars. Þar verður bætt við beygjuakrein af Lyngási inná Hafnarfjarðarveg til norðurs og hægri beygja frá Lækjarfit verður í framhjáhlaupi. Göngustígar þar verða endurbættir samhliða endurbótum á gatnamótunum.

Yfir vetrartímann eru umsvif í vegaframkvæmdum almennt minni en unnið er í verkþáttum og undirbúningi eins og veður leyfir.

Bætt öryggi og umferðarflæði

Markmið endurbótanna við Hafnarfjarðarveg er að auka öryggi vegfarenda og bæta umferðarflæði með því að bæta aðgengi hliðarvega inn á Hafnarfjarðarveg þar til hafist verður handa við gerð stokks á Hafnarfjarðarveginum. Í samgöngusáttmála ríkis og sveitafélag frá því í október 2019 verður sú framkvæmd á áætlun 2028-2030.