30. apr. 2021 Framkvæmdir Hafnarfjarðarvegur

Framkvæmdir við Hafnarfjarðarveg - endurbætur til að auka öryggi

Framkvæmdir við endurbætur á vegum Vegagerðarinnar og Garðabæjar á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar, Vífilsstaðavegar og Lyngáss eru í fullum gangi og standa yfir fram á haust. Næsta skref í þessum framkvæmdum er að gera undirgöng undir Hafnarfjarðarveg á móts við Lækjarás.

  • Hafnarfjarðarvegur framhjáhlaup vegna gatnaframkvæmda
    Framkvæmdir við undirgöng á Hafnarfjarðarvegi - framhjáhlaup og gönguleiðir

Framkvæmdir við endurbætur á vegum Vegagerðarinnar og Garðabæjar á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar, Vífilsstaðavegar og Lyngáss eru í fullum gangi og standa yfir fram á haust. Endurbæturnar koma til með að auka öryggi vegfarenda og umferðarflæði Hafnarfjarðarvegar ásamt því að bæta tengingu inná Hafnarfjarðarveg og á milli hverfa í Garðabæ.

Undirgöng fyrir gangandi og hjólandi

Næsta skref í þessum framkvæmdum er að gera undirgöng undir Hafnarfjarðarveg á móts við Lækjarás. Hraunsholtslækurinn verður leiddur í gegnum undirgöngin og lagðir verða nýir göngustígar að göngunum. Eftir þessar framkvæmdir verður hægt að komast undir Hafnarfjarðarveg á tveimur stöðum sem eykur öryggi gangandi vegfarenda. Það verður sérstaklega til bóta fyrir börn og ungmenni sem eiga leið í skóla og frístundir á þessu svæði. Fyrir voru undirgöng sunnan við gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar og göngubrú enn sunnar úr Ásahverfi yfir í Fitjahverfið.

Um miðjan apríl var byrjað á undirbúningi við undirgöngin og reiknað með að þau verði tilbúin áður en skólar byrja í haust. Undirgöngin verða sett saman úr forsteyptum einingum en til þess að koma þeim fyrir þarf að rjúfa Hafnarfjarðarveg og lækka klöpp í gangastæðinu.

Á meðan á þessum framkvæmdum stendur verður bílaumferð um Hafnarfjarðarveg beint um framhjáhlaup utan við gangastæðið. Fjórar akreinar verða í framhjáhlaupinu og hámarkshraði verður takmarkaður við 30 km/klst.
Töluverðar breytingar verða á gönguleiðum á meðan á þessu stendur og er sérstaklega vakin athygli á að ekki verður hægt að komast yfir Hafnarfjarðarveg við Lyngás.

Þegar þessum hluta framkvæmdanna er lokið verður farið í endurbætur á vegamótum Hafnarfjarðarvegar og Lyngás þar sem skipt verður um umferðarljós og vegamótin breikkuð og lagfærð, en þar verða tvær vinstri beygjuakreinar út úr Lyngás til norðurs.

Bætt öryggi og umferðarflæði

Markmið endurbótanna við Hafnarfjarðarveg er að auka öryggi vegfarenda og bæta umferðarflæði með því að bæta aðgengi hliðarvega inn á Hafnarfjarðarveg þar til hafist verður handa við gerð stokks á Hafnarfjarðarveginum. Í samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga frá því í október 2019 er gert ráð fyrir að sú framkvæmd verði á áætlun 2028-2030.