5. mar. 2021

Hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla í Urriðaholti

Í lok janúar sl. auglýsti Garðabær hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um tillögu að 6 deilda leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti. Áætluð heildarstærð leikskólans er um 1.400 m² og stefnt er að því að byggingin verði vistvottuð.

  • Kort af Urriðaholti
    Kort af Urriðaholti

Í lok janúar sl. auglýsti Garðabær hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um tillögu að 6 deilda leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti. Áætluð heildarstærð leikskólans er um 1.400 m² og stefnt er að því að byggingin verði vistvottuð.

Skilafrestur er til 26. apríl 2021 en auglýsinguna um samkeppnina má finna hér.

Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert ráð fyrir að allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Í hverfinu er Urriðaholtsskóli, samrekinn leik- og grunnskóli, með hátt í 160 börn á leikskólaaldri og nú þegar er ljóst að hefja þarf uppbyggingu nýs leikskóla í hverfinu í takt við íbúafjölgun.

Í deiliskipulagi Urriðaholts er gert ráð fyrir leikskóla á lóð við Holtsveg neðan götu sem opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að Kauptúni. Áætlað er að nýi leikskólinn í Urriðaholti verði 6 deilda leikskóli fyrir allt að 120 börn frá 1 árs aldri.

Séð yfir Urriðaholt. Ljósmynd: Þráinn Hauksson, Landslag

Umhverfisvænt hverfi

Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring. Stefnt er að því að nýi leikskólinn í Urriðaholti verði umhverfisvottuð bygging. Urriðaholt var fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags samkvæmt vottunarkerfi ,,BREEAM Communities“ sem er ætlað að tryggja lífsgæði og umhverfisvernd með vistvænu skipulagi byggðarinnar. Sjálfbærar ofanvatnslausnir eru í hverfinu sem eru fyrstu sinnar tegundar í íbúabyggð á landinu. Þó að stutt sé í náttúruna úr Urriðaholti liggur hverfið vel við í góðar samgönguæðar þar sem stutt er í Reykjanesbrautina. Síðasta haust hóf Strætó göngu sína í Urriðaholtið með hringleið um hverfið að Vífilsstaðavegi, fram hjá Garðatorgi og að Ásgarði þar sem eru góðar tengingar í aðrar strætóleiðir.

Frétt frá því í desember um hönnunarsamkeppnina má finna hér.