30. ágú. 2022 Íbúasamráð Stjórnsýsla

Hvað finnst þér? Íbúafundir í september

Í september verður blásið til íbúafunda undir yfirskriftinni ,,Hvað finnst þér?“ með Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar og sviðsstjórum hjá bænum. Íbúafundirnir verða haldnir miðvikudagana 7., 14. og 21. september og þriðjudaginn 27. september kl. 19:30-21:00 í mismunandi skólum bæjarins.

  • Íbúafundir í Garðabæ - Hvað finnst þér?
    Hvað finnst þér? Samtal um bæinn okkar - íbúafundir með bæjarstjóra og sviðsstjórum í september 2022

Í september verður blásið til íbúafunda undir yfirskriftinni ,,Hvað finnst þér?“ með Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar og sviðsstjórum hjá bænum. Íbúafundirnir verða haldnir miðvikudagana 7., 14. og 21. september og þriðjudaginn 27. september kl. 19:30-21:00 í mismunandi skólum bæjarins.

Fundirnir eru upplýsinga- og samráðsfundir þar sem boðið er í samtal um það sem íbúum liggur á hjarta. Á fundunum verður kynning á helstu málefnum, s.s. skólamálum, fjölskyldumálum, umhverfismálum og framkvæmdum í hverfunum. Góður tími verður fyrir fyrirspurnir og umræður á staðnum. Boðið verður upp á kaffi og veitingar á staðnum.

Fyrsti fundur í Urriðaholtsskóla miðvikudaginn 7. september kl. 19:30

Fyrsti fundur í röðinni verður haldinn miðvikudaginn 7. september nk. í Urriðaholtsskóla þar sem íbúar Urriðaholts eru sérstaklega velkomnir. Næsti fundir verða 14. september í Flataskóla, 21. september í Álftanesskóla og síðasti fundurinn verður haldinn 27. september í Sjálandsskóla. Bænum hefur verið skipt niður í hverfi fyrir fundina en hverfaskiptingin er eingöngu leiðbeinandi og allir fundir eru opnir öllum og íbúar geta mætt á þann fund sem hentar best.

Hér má sjá dagsetningu, tímasetningu og staðsetningu fundanna.

Þátttaka, þekking, þróun

Í endurskoðaðri lýðræðisstefnu Garðabæjar eru meginmarkmið stefnunnar þátttaka, þekking og þróun. Með þátttöku í samráði af alls kyns toga geta íbúar haft áhrif til að efla nærumhverfi sitt og samheldni í samfélaginu. Íbúar Garðabæjar eru hvattir til að mæta á íbúafundina í september og taka þannig þátt í uppbyggilegu samtali um hvernig hægt er að vinna saman að því að bæta þjónustu og efla samfélagið.

Fyrir áhugasama sem vilja fylgjast með en komast ekki á fundina verður hægt að fylgjast með fundunum í beinu streymi.