Lokahátíð skapandi sumarstarfa framundan
Lokahátíð Skapandi sumarstarfa í Garðabæ verður haldin þann 25. júlí næstkomandi milli kl 17-20 á Garðatorgi 7.
-
Lokahátíð skapandi sumarstarfa
Í sumar hafa 11 ungmenni unnið í skapandi sumarstörfum í Garðabæ. Þar hefur þeim gefist tækifæri til að vinna að eigin skapandi verkefnum yfir sumartímann auk þess sem þau tóku þátt í Jónsmessugleði Grósku fyrr í sumar. Verkefnin sem þau vinna að eru bæði einstaklings- og hópaverkefni sem snúa að tónlist, myndbandagerð, gjörningalist, dansi, ritlist, myndlist og hreyfimyndagerð.
Síðustu daga og vikur hafa þau verið með ýmsa viðburði fyrir almenning og framundan eru síðustu viðburðirnir auk lokahátíðar sem er sameiginleg uppskeruhátíð allra verkefna sem þau hafa unnið að.
Framundan eru viðburðir á vegum verkefnanna víðsvegar um bæinn. Sameiginleg uppskeruhátíð allra verkefna verður svo fimmtudaginn 25. júlí á Garðatorgi. Aðgangur er ókeypis og eru bæjarbúar sem og aðrir hvattir til að koma og fagna skapandi sumarstörfum.
Viðburðir framundan
23. júlí kl. 17:00-20:00 - Ygglist sýnir vídéoverk - Garðatorg 1
Ygglist frumsýnir vídeóverk sem er afrakstur listrænnar rannsóknar á ljótleikanum. Viðburðurinn verður í sal á Garðatorgi 1. Inngangur er við hlið Hönnunarsafns Íslands.
24. júlí kl. 19:30 - Sumartónleikar Önnu Katrínar Tónlistarskóli Garðabæjar
Anna Katrín Háldánardóttir heldur fiðlutónleika í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Á efnisskránni eru m.a. verk eftir Bach, Beethoven og Jón Nordal.
25. júlí kl. 17-20 - Garðatorg 7 - Lokahátíð Skapandi sumarstarfa í Garðabæ
Í sumar hafa 11 einstaklingar tekið þátt í skapandi sumarstörfum í Garðabæ. Á lokahátíðinni má sjá verk eftir þau öll: teikningar, myndbönd, málverk, dansgjörningur og ritlistarverk auk þess sem tónlistarverkefni sumarsins koma fram.
Aðgangur er ókeypis og bæjarbúar sem og aðrir eru velkomnir á lokahátíðina.