29. des. 2021 Framkvæmdir Skipulagsmál Stjórnsýsla

Samkomulag um lok uppbyggingar í Urriðaholti

Garðabær og Urriðaholt ehf hafa gert samkomulag um lok uppbyggingar byggðar í Urriðaholti og eru aðilar sammála um það markmið að ljúka uppbyggingu hverfisins á árinu 2024.

  • Undirritun samkomulags um lok uppbyggingar byggðar í Urriðaholti.
    Undirritun samkomulags um lok uppbyggingar byggðar í Urriðaholti. Frá vinstri: Jón Pálmason f.h. Urriðaholts ehf, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Ólafur Helgi Ólafsson stjórnarformaður Urriðaholts ehf, og Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf.

Garðabær og Urriðaholt ehf hafa gert samkomulag um lok uppbyggingar byggðar í Urriðaholti og eru aðilar sammála um það markmið að ljúka uppbyggingu hverfisins á árinu 2024. Samkomulagið sem var undirritað í desember er viðauki við samstarfssamninga sem voru gerðir á árunum 2005 og 2007 um uppbyggingu byggðar annars vegar í Kauptúni og hins vegar í Urriðaholti.

Uppbygging framundan

Samkvæmt samkomulaginu verður farið í forhönnun bygginga á lóðunum Urriðaholtsstræti 1,3-5 og 7 í samræmi við skipulag þar sem þeim verður ráðstafað undir atvinnustarfssemi. Forkynning stendur yfir á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina að Urriðaholtsstræti 9 þar sem áformað er að breyta notkun úr lóð fyrir verslun og þjónustu í íbúðir fyrir 50 ára og eldri og vonir standa til að sú uppbygging hefjist í lok næsta árs. Unnið er að útfærslu tillögu á deiliskipulagi og stækkun lóðar við Kauptún 4 þar sem hugmyndir eru um 13 þúsund m² viðbyggingu og þar standa einnig vonir til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Hugmyndir þróunarsjóðs Oddfellowa um nýtt deiliskipulag á háholtinu í Urriðaholti eru nú í ferli hjá skipulagsnefnd Garðabæjar og þar er einnig markmiðið að framkvæmdir geti hafist í lok næsta árs. Í samkomulaginu lýsir Garðabær yfir vilja til að hefja undirbúning og viðræður við hagsmunaaðila um gerð tengivegar austan við Kauptún 6 og að gatnamótum Reykjanesbrautar við Molduhraun í samræmi við aðalskipulag.

Fjölgun íbúa í Urriðaholti og aukin umsvif í Kauptúni

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Urriðaholti og Kauptúni á undanförnum árum en sumarið 2008 var fyrsti áfangi Urriðaholts tilbúinn til uppbyggingar. Efnahagshrunið hægði á uppbyggingunni en síðustu ár hefur verið góður gangur í framkvæmdum í hverfinu. Gatnagerð stendur nú yfir í 4. áfanga norðurhluta Urriðaholts sem er norðan við Urriðaholtsstræti og er síðasti áfanginn í uppbyggingu íbúðabyggðar í Urriðaholti. Í Urriðaholti hefur verið unnið að frágangi göngustíga og því verður framhaldið samhliða að lokið verði við uppbyggingu í hverfinu. Uppbygging almenningssamgangna í Urriðaholti hófst sem þróunarverkefni til eins árs og í haust var ákveðið að bæta þjónustuna með tíðari strætóferðum í hverfið.

Í hverfinu eru nú um 2500 íbúar en fullbyggt er gert ráð fyrir að í hverfinu verði um 4500 íbúar. Mikill fjöldi barnafjölskyldna hefur flutt í hverfið og því hefur þurft að flýta framkvæmdum við byggingu leik- og grunnskóla en á næsta ári verður byrjað á byggingu næsta áfanga Urriðaholtsskóla sem er samrekinn leik- og grunnskóli og einnig verður byrjað að byggja nýjan leikskóla í hverfinu.

Upplýsingar á vefnum  urridaholt.is

Á vef Urriðaholts ehf, urridaholt.is, er hægt að lesa nánar til um hverfið s.s. um áherslur í uppbyggingu hverfisins í umhverfismálum en Urriðaholt var fyrsta hverfið hér á landi til að hljóta vistvottun skv. alþjóðlega vottunarkerfinu ,,BREEAM“.  Urriðaholt ehf. var stofnað í ársbyrjun 2005 í þeim tilgangi að þróa uppbyggingu í Urriðaholti í Garðabæ. Félagið er í eigu Oddfellowreglunnar á Íslandi og Viskusteins ehf., eignarhaldsfélags í eigu Sigurðar Gísla Pálmasonar og Jóns Pálmasonar.

Á mynd hér fyrir neðan sem er fengin af vef Urriðaholts ehf má sjá línur sem marka hvar síðustu húsin rísa við Keldugötu, en vinna við byggingu þeirra er hafin. Sjá einnig frétt hér á vef Urriðaholts. 

Lóðir við Keldugötu í Urriðaholti