10. okt. 2022 Grunnskólar Skólamál Stjórnsýsla

Samningur um starfsemi Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum

Garðabær og Hjallastefnan gera með sér samning um starfsemi Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum.

  • Undirritun samnings við Hjallastefnuna
    Frá vinstri: Eiríkur Björn Björgvinsson forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs, Almar Guðmundsson bæjarstjóri, ....

Garðabær og Hjallastefnan gera með sér samning um starfsemi Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum. Þeir Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar og Bóas Hallgrímsson framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar undirrituðu samninginn í september. Í Barnaskólanum á Vífilsstöðum er rekin leikskóladeild fyrir 5 ára börn og grunnskólastarfsemi fyrir 1.-7. bekk eða 6-12 ára nemendur.

Markmið að auka á fjölbreytileika í skólasamfélagi bæjarins

Markmið Hjallastefnunnar með starfsemi sameiginlegs leik- og grunnskóla í Garðabæ er að auka á fjölbreytileika í skólasamfélagi bæjarins með litlum Hjallastefnuskóla og fámennum bekkjardeildum í náttúrulegu umhverfi. Samkvæmt samningnum skuldbindur Hjallastefnan til að allt skólastarf verði í samræmi við lög um leik- og grunnskóla, fylgi aðalnámskrám leik- og grunnskóla og þeim reglugerðum sem gilda um leik- og grunnskóla. Börn með lögheimili í Garðabæ hafa forgang á skólavist í Barnaskólanum á Vífilsstöðum en ef framboð leyfir þá er skólanum heimilt að taka inn börn úr öðrum sveitarfélögum. Með samningnum fylgdi viljayfirlýsing um áframhaldandi viðræður um ýmis atriði eins og húsnæðismál, kostnað vegna stjórnvaldsákvarðana, aðstöðu til íþróttaiðkunar, fjárhagsleg áhrif innleiðingar á farsældarlögunum o.fl.

Hjallastefnuskólar í Garðabæ

Garðabær og Hjallastefnan hafa átt langt og farsælt samstarf á liðnum árum eða allt frá árinu 2001 þegar Hjallastefnan gerði þjónustusamning við Garðabæ um rekstur leikskólans Ása. Þar áður hafði Hjallastefnan rekið einn leikskóla í Hafnarfirði. Haustið 2003 hóf Hjallastefnan rekstur á fyrsta grunnskólanum þegar starfsemi Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ hófst. Í dag rekur Hjallastefnan leikskólann Hnoðraholt/Litlu Ása að Vífilsstöðum og leikskólann Ása í Ásahverfi í Garðabæ auk Barnaskólans á Vífilsstöðum. Hjallastefnan rekur fjölmargar leikskóla um allt land og þrjá barnaskóla.