16. okt. 2022 Fjölnota íþróttahús Íþróttir og tómstundastarf

Sótthreinsun á gervigrasi í Miðgarði

Í september bárust bæjaryfirvöldum í Garðabæ ábendingar um léleg loftgæði í íþróttahúsinu Miðgarði sem nýlega var tekið í notkun. Í kjölfarið var verkfræðistofan Mannvit fengin til að gera úttekt á húsinu vegna loftgæða og hugsanlegra raka- og mygluskemmda.

  • Sótthreinsun í Miðgarði
    Sótthreinsun á gervigrasi

Þann 5. október lágu niðurstöður mælinga fyrir og í ljós kom að sveppagró greindist í gúmmíundirlagi undir gervigrasi við austurvegg hússins. Um er að ræða jarðvegssvepp og er talið að sveppurinn hafi borist inn í húsið í sl. marsmánuði með leysingarvatni þegar mikið vatn flæddi inn í húsið. Á þeim tíma var lóð enn ófrágengin og fráveita ræsti sig því ekki sem skyldi.

Loftgæðamælingar sýna að loftgæði eru vel innan skilgreinda viðmiðunarmarka þar sem góð loftræsting í húsinu tryggir hröð loftskipti.

 Beðið er frekari niðurstaðna um umfang vandans en reiknað er með að á einhverjum tímapunkti þurfi að fletta gervigrasi upp og skipta um gúmmíundirlag. Samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga verður jarðvegssveppnum haldið niðri með reglulegri sótthreinsun þangað til gúmmíundirlag verður fjarlægt. Fyrsta sótthreinsun fór fram laugardaginn 15. október.

Regluleg sótthreinsun fer fram á þeim tíma sem ekki eru æfingar eða kennsla þar sem gervigrasið er og tryggt verður að öll ummerki sótthreinsunar verða horfin áður en notkun hefst á ný eftir hverja hreinsun.

Vegna tíðra loftskipta og með reglulegri sótthreinsun á að vera tryggt að heilsu barna, starfsfólks, foreldra auk annarra sem í húsið koma sé ekki ógnað. Reglulega verður fylgst með loftgæðum og ef þau fara yfir viðmiðunarmörk verður allri starfsemi umsvifalaust hætt.

Vegna þessa er ekki gert ráð fyrir að æfingar, kennsla og annað starf í Miðgarði raskist. Ef til þess kemur mun Garðabær leita leiða í samstarfi við íþróttafélögin að finna önnur svæði til æfinga og íþrótta.