14. maí 2021

Uppbygging í Vetrarmýri

Nýverið auglýsti Garðabær eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði vegna kaupa á þjónustu og ráðgjöf við úthlutun lóðarréttinda og sölu byggingarrétta í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ. Umsóknarfrestur er til föstudagsins 28. maí nk. kl. 14:00.

  • Vetrarmýri í Garðabæ
    Vetrarmýri í Garðabæ

Vetrarmýri - miðsvæði er nýtt uppbyggingarsvæði í Garðabæ, sem er um 20 ha að flatarmáli. Svæðið liggur meðfram Reykjanesbraut til vesturs, Vífilsstaðavegi til suðurs, golfvelli GKG til austurs og Hnoðraholti til norðurs.  

Nýverið auglýsti Garðabær eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði vegna kaupa á þjónustu og ráðgjöf við úthlutun lóðarréttinda og sölu byggingarrétta í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ.  Þjónustan sem leitað er eftir felst í að annast ráðgjöf og þjónustu við Garðabæ um fyrirkomulag úthlutunar lóðarréttinda og sölu byggingarrétta, og umsjón með gerð verðmats og sölukynninga, markaðssetningu, öflun umsókna, skjalagerð og samskipti við væntanlega lóðarhafa og kaupendur byggingarrétta.

Hér á vef Garðabæjar er hægt að nálgast auglýsinguna og forvalsgögn en umsóknarfrestur er til föstudagins 28. maí nk. kl. 14:00.  Að forvali loknu verður fimm hæfustu umsækjendunum gefinn kostur á að taka þátt í lokuðu útboði um verkið.


Vetrarmýri í Garðabæ

Um Vetrarmýri

Í Vetrarmýri er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða, verslunar og þjónustu og fjölnota íþróttasvæði. Samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið liggur fyrir. Áætlað er að á svæðinu verði 664 íbúðir og um 36.000 m² af atvinnuhúsnæði. Vetrarmýri er hluti af stærra skipulagssvæði, rammahluta aðalskipulags, sem skilgreint er sem þróunarsvæði B Vífilsstaðaland. Rammahlutinn gerir ráð fyrir alls níu deiliskipulagsáföngum og horft er til uppbyggingar á Vífilsstöðum til lengri framtíðar. Alls er gert ráð fyrir 2.000 – 2.400 íbúðum á öllu skipulagssvæðinu í heild og 146.000 – 156.000 m² af stofnunum og atvinnuhúsnæði.
Gott aðgengi er að svæðinu frá bæði Reykjanesbraut og Arnarnesvegi og fyrirhugað er að á og að svæðinu verði göngu- og hjólastíganet. Auk þess verður greitt aðgengi að fjölbreyttum útivistarsvæðum, svo sem Smalaholti, Vífilsstaðahrauni og upplandi Garðabæjar. Unnið er að því að umhverfisvotta deiliskipulagið samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu Breeam Communities.