4. feb. 2020

Vetrarhátíð - Safnanótt og Sundlauganótt í Garðabæ

Hin árlega Vetrarhátíð fer fram dagana 6.-9. febrúar nk. með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Garðabær tekur þátt með því að bjóða upp á dagskrá á Safnanótt föstudaginn 7. febrúar og einnig með þátttöku í Sundlauganótt sem er að þessu sinni haldin sunnudaginn 9. febrúar.

  • Vetrarhátíð logó

Hin árlega Vetrarhátíð fer fram dagana 6.-9. febrúar nk. með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Garðabær tekur þátt með því að bjóða upp á dagskrá á Safnanótt föstudaginn 7. febrúar og einnig með þátttöku í Sundlauganótt sem er að þessu sinni haldin sunnudaginn 9. febrúar.

Á Safnanótt, föstudaginn 7. febrúar, verður opið hús og fjölbreytt dagskrá frá kl. 18-23 í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki og Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg. Auk þess verður opið hús á Bessastöðum frá kl. 19-22.  Sunnudaginn 9. febrúar verður skemmtileg dagskrá á Sundlauganótt í Álftaneslaug frá kl. 17-22 og ókeypis aðgangur í laugina á meðan.  

Dagskráin í Garðabæ er aðgengileg í viðburðadagatalinu hér á vefnum en einnig er hægt að sjá dagskrá á vef Vetrarhátíðar, vetrarhatid.is.

 

Opið hús í Króki á Garðaholti á Safnanótt frá 18-23

Burstabærinn Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Börn geta tekið þátt í ratleik á staðnum auk þess sem safnvörður veitir leiðsögn. Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti, en Krókur staðsettur á gatnamótum Garðavegar og Garðaholtsvegar.

Silent diskó, spákona, forritunarsmiðja, ,,Gone with the Wind“ o.fl. í bókasafninu

Í Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg verður skemmtileg dagskrá fyrir alla aldurshópa á Safnanótt. Boðið verður upp á ratleik og leiðsögn um safnið, skólakór Sjálandsskóla syngur, gestir geta pantað stuttan tíma hjá spákonu. Gunnar Júlíusson myndlistarmaður í Grósku verður með sýningaropnun og móttöku. Boðið er upp á forritunarsmiðju fyrir börn 6 ára og eldri þar sem perlur eru notaðar til að læra tvíundakóðun. Bíómyndin ,,Gone with the Wind“ verður sýnd kl. 19 í salnum Sveinatungu á Garðatorgi og þar er um sannkallaða maraþonsýningu að ræða en myndin er hátt í fjórir tímar að lengd. Síðast en ekki síst geta gestir á öllum aldri dansað í safninu um kvöldið en þá mætir Silent diskó á staðinn frá kl. 20-22 með þráðlaus heyrnartól þar sem gestir geta valið á milli mismunandi tónlistar.

Áhugaverðir fyrirlestrar og lifandi jazz í Hönnunarsafninu

Á Safnanótt verður ókeypis aðgangur inn á sýningar og dagskrá Hönnunarsafnsins sem er til húsa að Garðatorgi. Í byrjun kvölds kl. 18 verður boðið upp á fyrirlestur dr. Arndísar S. Árnadóttur í Sveinatungu á Garðatorgi sem nefnist ,,Sveinn Kjarval, andinn býr í innréttingunum”. Kl. 20 verður annar fyrirlestur í húsakynnum safnsins þar sem Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), rannsóknarprófessor við LHÍ, flytur fyrirlestur í tengslum við rannsóknarverkefnið, íslensk myndmálssaga, er nefnist ,,Rekaviður, um ferðalög hugmyndanna”. Gestir geta svo slakað á og notið góðrar jazztónlistar frá kl. 21 þegar boðið verður upp á lifandi jazz í tengslum við sýningu á húsgögnum Sveins Kjarvals ,,Það skal vanda sem lengi á að standa”.

Opið hús á Bessastöðum á Safnanótt kl. 19-22

Á Safnanótt verður forsetasetrið að Bessastöðum opið almenningi frá kl. 19-22. Gestum býðst að skoða Bessastaðastofu og kirkjuna. Auk hinna merku steinhúsa frá 18. öld geta gestir virt fyrir sér sýnishorn gjafa, sem forseta hafa borist og fornleifar sem veita innsýn í búsetu á Bessastöðum frá landnámstíð. Þá mun fyrsti forsetabíll lýðveldissögunnar, Packard bifreið Sveins Björnssonar, standa í hlaði Bessastaða.

 

 

Sundlauganótt í Álftaneslaug sunnudaginn 9. febrúar – Öldudiskó, Hipsumhaps og zumba

 Í ár verður boðið upp á dagskrá í Álftaneslaug þar sem verður opið lengur og ókeypis aðgangur í laugina frá kl. 17-22. Boðið verður upp á dótasund í innilauginni fyrri part kvölds frá kl. 17-19, öldudiskóið verður á sínum stað þar sem öldusundlaugin verður sett af stað um 19 leytið.

Hljómsveitin Hipsumhaps mætir til leiks og spilar fyrir gesti sundlaugarinnar kl. 20. Hipsumhaps sló í gegn á síðasta ári og lögin þeirra hafa verið meðal vinsælustu laga landsins. Hljómsveitin á rætur að rekja á Álftanes og til gamans má geta þess að Álftaneslaug kemur við sögu á breiðskífu sveitarinnar sem kom út síðasta haust en þar voru tekin upp hljóð sem voru notuð á plötunni.

Sundlaugagestir gesta svo fjölmennt í hressilegan zumbatíma í sundlauginni kl. 20:30 og kl. 21 verður boðið upp á flot og jóga í innilauginni. Sundlaugin verður lýst upp til að skapa notalega stemningu og einnig verður spiluð tónlist.