Aðgerðarplan vegna Miðgarðs í vinnslu
Frekari mælingar nauðsynlegar til að hægt sé að opna Miðgarð. Æfingar á gervigrasi falla niður tímabundið.
-
Sótthreinsun á gervigrasi
Eins og fram hefur komið hefur verið unnið að sótthreinsun og mælingum vegna loftgæða og sveppagró í íþróttahúsinu Miðgarði. Niðurstöður úr fyrstu mælingum lágu fyrir 5. október sl. og í þeim kom í ljós að sveppagró greindist í gúmmíundirlagi undir gervigrasi við austurvegg hússins. Um var að ræða jarðvegssvepp og talið að sveppurinn hafi borist inn í húsið í vor með leysingarvatni þegar flæddi inn í húsið.
Í framhaldi var farið í frekari mælingar á loftgæðum og sýnatöku við gervigrasið og undirlag þess í húsinu og gervigrasið sótthreinsað 15. október sl. Enn fleiri sýni voru svo tekin eftir sótthreinsun.
Í vikunni var tekin ákvörðun um að fella niður æfingar á gervigrasinu í Miðgarði í nokkra daga á meðan væri verið að rýna í niðurstöður úr sýnatökum úr húsinu og taka fleiri sýni.
Á þessu stigi liggur virkni sótthreinsunar á gervigrasi ekki að fullu fyrir og vegna þess þarf að fara í enn frekari sýnatökur til að greina mögulega útbreiðslu.
Æfingar á gervigrasi falla niður tímabundið
Til að tryggja öryggi og heilsu barna og annarra verða ekki æfingar, kennsla eða annað starf í rýmum þar sem gervigrasið er í húsinu þar til annað verður ákveðið og meðan beðið er niðurstaðna úr endurteknum loftgæðamælingum og sýnatökum. Þegar það liggur fyrir er hægt að greina umfang vandans og setja upp aðgerðarplan.
Í samstarfi við íþróttafélög verða fundin önnur svæði til æfinga og íþrótta á meðan æfingar á gervigrasinu falla niður tímabundið.