Félagsmiðstöðvarnar mikilvægur vettvangur í tilveru unglinga
Sex félagsmiðstöðvar eru starfandi innan grunnskóla Garðabæjar en í janúar hófst starf í tveimur nýjum félagsmiðstöðvum; í Flataskóla og í Hofsstaðaskóla . Félagsmiðstöðvarnar spila oft stórt hlutverk í lífi unglinga og eru mikilvægur vettvangur fyrir þau til að hittast, styrkja sig félagslega og þjálfa samskipti sín á milli.
Sex félagsmiðstöðvar eru starfandi innan grunnskóla Garðabæjar, þær eru í Hofsstaðaskóla, Flataskóla, Urriðaholtsskóla, Sjálandsskóla, Garðaskóla og Álftanesskóla. Og ekki má gleyma Garðahrauni en það er sértækt frístundar- og félagsmiðstöðvaúrræði fyrir börn í 5.-10.bekk við grunnskóla í Garðabæ. Félagsmiðstöðvarnar vinna allar að sömu markmiðum, stefnum og gildum en þær eru þó ólíkar að mörgu leyti.
Sigríður Elísabet, alltaf kölluð Sigga Lísa, kennari og forstöðumaður Elítunnar, félagsmiðstöðvarinnar á Álftanesi, og Ragnhildur Jónasdóttir, kennari og forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Urri, eru báðar miklir reynsluboltar þegar kemur að vinnu með unglingum. Þær eru sammála um mikilvægi þess starfs sem fer fram innan félagsmiðstöðva.
Félagsmiðstöðvarnar spila oft stórt hlutverk í lífi unglinga og eru mikilvægur vettvangur fyrir þau til að hittast, styrkja sig félagslega og þjálfa samskipti sín á milli.
Engar stífar reglur
Aðaláherslurnar hjá Elítunni eru lagðar á að búa til pláss fyrir öll ungmenni, sér í lagi þau sem eru ekki í öðru skipulögðu tómstundastarfi. Í Elítunni er boðið upp á fjölbreytt starf þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
„Það er opið hjá okkur alla daga í frímínútum og svo bjóðum við líka upp á kvöldstarf,“ segir Sigga Lísa.
Hún segir starfsfólk leggja mikið upp úr því að vera með fjölbreytta dagskrá en hún lýsir henni þó sem lágstemmdri.
„Við viljum halda kostnaði í lágmarki og þá frekar bjóða upp á færri en flottari viðburði. Svo er dagskráin nánast alfarið í þeirra höndum, við fáum unglingana til að móta hana með okkur út frá þeirra áhugasviði.“
Húsnæði Elítunnar er í íþróttamiðstöðinni Álftanesi. Sigga Lísa segir félagsmiðstöðina vera afdrep fyrir unglingana og upplifir að þeim finnist gott að hafa samastað utan skólans til að kúpla sig aðeins út. Hún segir vinsælt að mæta í Elítuna í frímínútum.
Stuð í Elítunni.
„Hér eru engar stífar reglur. Hér bera allir ábyrgð á sjálfum sér og það ríkir gagnkvæm virðing á milli starfsfólksins og unglinganna. Það er aldrei skylda að mæta í Elítuna, þau mæta bara þegar þau vilja og eiga að finna að þau eru velkomin hingað.“
Efla félagsfærnina
Ragnhildur Jónasdóttir er kennari og forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Urri. Hún segir félagsmiðstöðina vera vettvang til að m.a. styrkja tengslamyndun og félagsfærni.
„Þetta er mjög mikilvægur vettvangur fyrir unglinga til þess að koma saman og upplifa að þau séu jafningjar. Þau upplifa Urra sem öruggt svæði til þess að sinna skipulögðum viðburðum og njóta þess að vera saman og styrkja tengslamyndun og félagsfærni,“ segir Ragnhildur.
Hún segir krakkana mjög duglega að nýta sér félagsmiðstöðina og stunda dagskrána sem þar er boðið upp á.
„Það er um 50-70 prósent mæting í Urra. Unglingastig Urriðaholtsskóla er enn þá að stækka og hlökkum við mikið til þess að fylgjast með starfinu vaxa og stækka með unglingunum.“
Helstu áherslurnar í Urra eru að styðja við unglinga í gegnum fjölbreytt tómstundastarf. Meginmarkmið starfsins er að veita þeim tækifæri til samveru og stunda heilbrigðar tómstundir undir leiðsögn reyndra tómstundaleiðbeinenda. Leiðarljós starfsins er að efla félagsfærni, sjálfsmynd og virkni unglinganna. Unnið er út frá hugmyndafræði barna- og unglingalýðræðis, hugmyndum og áhugasviði nemenda skólans. Leitað er eftir röddum unglinganna hvað varðar starfsemi og þær uppákomur sem verða hverju sinni, innra starf og umgjörð. „Okkar helsta markmið núna er að virkja unglingana í viðburðum Samfés þar sem Urri er nýlega kominn með aðild að félaginu,“ segir Ragnhildur.